Hiti
Almennt má segja að lítið brot af þeirri sólarorku sem fellur á jörðina nægi til allra þarfa mannfólksins og því sé enginn skortur á orku. Vandamálið er bara að við höfum ekki lært að beisla hana á vistvænan og hægkvæman máta nema í mjög litlum mæli. Þess vegna er verið að nota jarðefnaeldsneyti, bensín, dísilolíu og kol til rafmagnsframleiðslu, húshitunar og flutninga.
Um 90% Íslendinga eru þeirrar gæfu aðnjótandi að þurfa ekki að nota jarðefnaeldsneyti til húshitunar né rafmagnsframleiðslu. Samt er losun gróðurhúsalofttegunda lítið minni á Íslandi en erlendis og orkunotkun á mann ein sú mesta í Evrópu. Stafar það fyrst og fremst af stórum fiskiskipaflota og stóriðju. Að rafmagn á Íslandi sé að mestu leyti frá vatnsaflsvirkjunum þýðir ekki að við getum leyft okkur að nota rafmagn eins og við viljum. Í fyrsta lagi kostar rafmagn, í öðru lag valda vatnsaflsvirkjanir vissum umhverfisspjöllum og í þriðja lagi gætu Íslendingar flutt út meira rafmagn en þeir gera í dag, eða nýtt til annarra þarfa, ef við göngum vel um þessa auðlind sem vatnsaflsvirkjanir eru.
Öll stóriðja er óbeinn útflutningur á rafmagni. Rafmagn er til dæmis afurð annara orkugjafa eins og vatnsafls, bensíns eða olíu. Minnki Íslendingar t.d orkunotkun sína þá væri hægt að nota þann sparnað til framleiðslu vetnis sem vonandi verður hægt að nota í staðinn fyrir bensín og olíu til samgangna innan allt of margra ára. Þetta er einfaldað dæmi til að sýna að allt hangir þetta á sömu spýtu, orkusparnaður á heimili eða vinnustað sparar ekki bara peninga heldur einnig umhverfið.
Lækkun á innihita
Algengur hiti í húsum hér á landi er 23-25°C, en rannsóknir sýna að 20°C innihiti er kjörhiti, þ.e. með tilliti til loftgæða og líðan íbúa. Hafa ber í huga að hitakostnaður hækkar um 7% ef hiti er hækkaður um eina gráðu. Það er t.d. óþarfi að kynda mikið á sólríkum dögum og auðvelt að lækka hitann áður en farið er að heiman.
Gott er að nýta affall heita vatnsins af íbúðarhúsinu til að hita bílskúrinn. Athuga kælingu sem bílskúrshurðin veldur og þá sérstaklega þéttingu hurðarinnar með karminum. Þess vegna er tilgangslaust að hita hann mikið upp.
Birt:
Tilvitnun:
Náttúran er „Hiti“, Náttúran.is: 8. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2007/06/21/hiti/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. júní 2007
breytt: 3. maí 2014