Síðasta sumar datt mér í huga að pakka fallega laxinum sem mér var færður beint úr Hvíta inní rabarbarablöð og skella á grillið. Rabarbarblöðin voru svo falleg og stór að þau komu með hugmyndina sjálf. Þetta smakkaðist svo frábærlega að ég man enn eftir bragðinu og er ákveðin í að endurtaka þetta í kvöld, í Evróvisjónveisluna.

Hér kemur uppskriftin:

  • Takið stóran rabarbara með stóru fallegu laufi og skerið laufið af stilknum. Geymið stilkinn í eftirrétt eða sultugerð.
  • Nýveiddur lax eða silungur er hausaður og flakaður. Nú eða hafður heill, eins og hver vill.
  • Leggið laufið (hálft eða heilt eftir stærð þess) á álpappír sem þarf að vera tvisvar sinnum lengd flaksins til að hægt sé að loka því. Kryddið laxinn með því sem vex í næsta nágrenni t.d. mjaðurt, fíflalaufum, lyngi og súru, allt eftir árstíma. Saltið örlítið og hellið smáolíu yfir, t.d. ólífuolíu.
  • Pakkið flakinu inní rabarbaralaufið og leggið á álpappírinn. Lokið álpappírnum.
  • Það gengur örugglega líka ágætlega að sleppa álpappírnum og binda utan um laufið til að halda því í skefjum. Bandið verðurþá að vera úr náttúrulegu efni t.d. hör.
  • Grillið í 4-7 mínútur, (eftir þykkt fisksins) á heitu grilli og berið fram með soðnum kartöflum eða því sem að ykkur dettur í hug og er við hendina.
  • Laufið er vel hægt að borða með en rabarbaralaufið gefur fisknum ljúft súrubragð líkt og þegar örlítið af sítrónu er notuð til bragðbætis.

Myndin er af rabarbaralaufi [Rheum rhabarbarum]. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
21. júní 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Grillaður lax í rabarbaralaufi“, Náttúran.is: 21. júní 2014 URL: http://nature.is/d/2007/07/16/grillaur-lax-rabbarbaralaufi/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. júlí 2007
breytt: 21. júní 2014

Skilaboð: