Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið í samráði við lögreglustjórana á Selfossi, Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Borgarfirði og Dölum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri og Húsavík, að lýsa yfir hættustigi almannavarna vegna óveðurs sem spáð hefur verið á vestan- og norðanverðu landinu.

Búast má við miklu óveðri og ófærð auk þess sem stórstreymt er í fyrramálið og getur veðrið haft áhrif á sjávarhæð.  Við þessar aðstæður má einnig búast við ísingu á raflínum.

Óvissuástandi var lýst yfir á Vestfjörðum öllum fimmtudaginn 27. desember vegna snjóflóðahættu.  Í framhaldi af því var hættuástandi vegna snjóflóðahættu lýst yfir á Patreksfirði, í Hnífsdal, á Flateyri og á Ísafirði auk þess sem nokkrir bæir á Vestfjörðum hafa verið rýmdir.

Óvissuástandi vegna snjóflóðahættu var lýst yfir á Mið-Norðurlandi föstudaginn 28. Desember.

Skilgreining á hættustigi almannavarna:
Ef hættumat leiðir í ljós að hætta fer vaxandi verður að grípa til tafarlausra ráðstafana til að tryggja sem best öryggi þeirra sem á svæðinu búa/dvelja. Slíkt er gert með því að efla viðbúnað neyðar- og öryggisþjónustunnar á viðkomandi svæði, ásamt því að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða s.s. rýmingar, brottflutnings eða lokunar svæða. Einnig eru leiðbeiningar og viðvaranir einkennandi fyrir þetta stig.

 

Birt:
28. desember 2012
Tilvitnun:
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra „Hættistigi almannavarna lýst yfir vegna óveðurs“, Náttúran.is: 28. desember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/12/28/haettistigi-almannavarna-lyst-yfir-vegna-ovedurs/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: