Waldorfleikskólinn Ylur og Waldorfskólinn í Lækjarbotnum halda sinn árlega jólabasar laugardaginn 17. nóvember frá kl. 12:00 -17:00.
Margir fallegir hlutir verða í boði bæði í umhverfi og stemmningu sem hverjum og einum er hollt að upplifa, m.a. brúðuleikhús, barnakaffihús, veiðitjörn, eldbakaðar pizzur, jurta apótek, tónlist á vegum nemenda, tívolí og munir þar sem hugur mætir sköpunarkrafti handanna.

Dagskrá:

Kaffi og kökur, handverk, jurta apótek kl. 12:00 - 17:00
Brúðuleikhús kl. 13:00 og 15:00
Eldbakaðar pizzur og tónlist kl. 12:00 - 15:00

  • Veiðitjörn er í höndum 1. -  2.bekkjar en þar veiða börn pakka úr hafinu.
  • 3.-4. bekkur sjá um barnakaffihús en þar fá fullorðnir einungis að versla í fylgd með börnum.
  • 5.-6. bekkur er með tívolí.
  • 7.-8. bekkur er með happdrætti.
  • 9.-10. bekkur matreiðir eldbakaðar pizzur í Skemmunni.
  • Menningaratriði nemenda eru í Skemmunni
  • Brúðuleikhús er í höndum kennara skólans en þar er blandað saman brúðum, sögustund og tónlist.
  • Börn og foreldrar allra bekkja skólans og leikskólans hafa unnið handverk og búið til jurta apótek.

Sjá staðsetningu Waldorfskólans í Lækjarbotnum hér á Græna kortinu.

Um Waldorfuppeldis- og kennslufræði:

Uppeldisfræði Waldorfskólanna var þróuð af Rudolf Steiner og á sér grundvöll í heimspeki hans og mannspeki. Mannspekin felur í sér afstöðu gagnvart manninum, samfélaginu og náttúrunni sem er bæði andleg og efnisleg
Í Waldorfskólanum Lækjarbotnum byggir skólastarfið á waldorfuppeldis- og kennslufræði.  Mikil áhersla er lögð á að stuðla að alhliða þroska nemandans.  Uppeldisfræðin hvílir á tveimur meginstoðum.  Annars vegar viðhorfum til mannsins og þeirri sýn á veru og eðli mannsins sem birtist í mannspeki Rudolf Steiner og hins vegar þeim hugmyndum sem hann setti fram um félagslega uppbyggingu samfélagsins.

Jöfn áhersla er lögð á vitsmunalegan, tilfinningalegan og líkamlegan þroska nemandans.  Með vitsmunaþroska er m.a. átt við skólun skapandi hugsunar með tilliti til almennra þekkingar og fræðilegra þátta.  Með tilfinningaþroska er m.a. átt við listrænan þroska,(fagurskyn) siðgæðis- og félagsþroska.  Með líkamlegum þroska er m.a. átt við hreyfiþroska, skólun viljans og verklegrar leikni.  Rík áhersla er á listræna og verklega nálgun í allri kennslu.  Reynt er að samtvinna alla þessa þætti þar sem mögulegt er og hafa kennsluna eins fjölbreytta og viðfangsefni og aðstæður bjóða upp á.  Leitast er við að ná fram lifandi áhuga nemandans á viðfangsefnunum og koma á móts við þarfir og kröfur einstaklingsins.  Námsefninu er ætlað að endurspegla það sem barnið er að takast á við í sínum sálarþroska og hjálpa því til að hann finni hamingju og lífsgleði á leið sinni til aukins þroska.

Ljósmynd: Börn í Waldorfskólanum búa til ávexti úr þæfðri ull fyrir jólabasarinn.

Birt:
14. nóvember 2012
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Jólabasar í Lækjarbotnum“, Náttúran.is: 14. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/14/jolabasar-i-laekjarbotnum/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: