Vill Samfylkingin hið Fagra Ísland eða stóriðjustefnuna - það er spurningin
Til marks um þann taugatitring sem gætir nú vegna stöðu Rammaáætlunar sem nú er á höndum alþingismanna að taka ákrörðun um, og þá í fyrstu lotu í höndum atvinnuveganefndar, þá óskar Dofri Hermannsson formaður Græna netsins Árna Páli til hamingju með „ágætt kjör“ á kaldhæðinn hátt á bloggsíðu sinni í dag en þar segir hann m.a.
„Nú býst ég við að þú beinir dugnaði þínum að næsta verkefni, formannskjörinu. Og sem formaður Græna netsins, félags jafnaðarmanna um náttúruna, umhverfið og framtíðina, er ég með spurningu sem tengist því.
Er það rétt að þú sért einn þeirra 5 þingmanna flokksins sem hafa verið með undanbrögð varðandi stuðning við Rammaáætlun? Einn þeirra sem hafa haft uppi orð um fyrirvara, hjásetu og jafnvel mótatkvæði?
Rammaáætlun hefur verið baráttumál flokksins mörg undanfarin ár. Athugaðu að sú þingsályktunartillaga um Rammaáætlun sem fyrrverandi formaður flokksins Ingibjörg Sólrún Gíslandóttir flutti náði til landsins alls.
Sú Rammaáætlun sem við lögðum af stað með í samstarfi við Sjálfstæðisflokk og nú bíður afgreiðslu Alþingis nær aðeins til virkjanasvæða og var því mikil málamiðlun frá stefnu Samfylkingarinnar.
Nú erum við í samstarfi við Vinstri græna og frekari málamiðlanir á stefnu flokksins verða ekki raktar þangað. Aðeins til þeirra þingmanna Samfylkingarinnar sem af einhverjum ástæðum virðast finna sig betur í stefnu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í þessum málaflokki.
Sem formannsframbjóðandi hefur þú talað um að sjálfsmynd Samfylkingarinnar hafi brenglast, litast af stefnu Vg. Það hljómar undarlega þegar haft er í huga að Samfylkingin var miklu róttækari í náttúruverndarmálum árið 2007 en hún er nú. Mér sýnist hið gagnstæða augljóst. Grá hægri öfl innan þingflokksins virðast vera að færast í aukana.
Ég vona að þú getir gefið skýr og greinargóð svör við þessum spurningum. Flokksmenn eiga að fá að vita hvort formannsframbjóðandi leggur vísvitandi snörur fyrir stefnumál flokksins.“
Annar þungavigtarmaður í umhverfismálum á Íslandi Guðmundur Hörður Guðmundsson formaður Landverndar tjáir sig um slagsíðuna í umhverfispólitík Samfylkingarinnar á bloggsíðu sinni í dag undir yfirsögninni „Hvert stefnir Samfylkingin í stóriðjumálum?“:
„Stóra deilumálið innan Samfylkingar í aðdraganda kosninga er hvor stefnan skuli verða ofan á, gjaldþrota stóriðjustefna eða Fagra Ísland. Þetta kom berlega í ljós í niðurstöðu prófkjara gærdagsins.
Í Norðausturkjördæmi var Kristján L. Möller valinn til að leiða lista Samfylkingar, en hann er leiðtogi stóriðjustefnunnar innan flokksins. Í öðru sæti lenti svo Erna Indriðadóttir, upplýsingafulltrúi álvers Alcoa í Reyðarfirði, þess fyrirtækis sem reynir nú að þvinga Grænlendinga til að veita sér skattfrelsi til áttatíu ára.
Í Suðvesturkjördæmi munu fulltrúar Fagra Íslands hins vegar leiða listann. Þannig hefur Árni Páll Árnason t.d. gagnrýnt það sem hann kallar stóriðjusovét Sjálfstæðisflokksins og Magnús Orri Schram hefur sagt að umhverfisvernd geti orðið besta atvinnustefnan. Katrín Júlíusdóttir sýndi fram á það sem iðnaðarráðherra að hún gat komist að sameiginlegri niðurstöðu um rammaáætlun með umhverfisráðherra Vinstri grænna og Margrét Gauja Magnúsdóttir, sá Hafnfirðingur sem náði efst á listann, er ekki úr hópi gömlu stóriðjukratanna í Hafnarfirði.
Þannig að Fagra Ísland vann í Suðvesturkjördæmi en stóriðjustefnan í Norðaustur. Stóra spurningin er því hvor stefnan verður ofan á í þeim kjördæmum sem eiga eftir að velja á lista.
Í Reykjavík eru fáir talsmenn stóriðjustefnunnar, ef nokkrir. Eindregnust í stuðningi við Fagra Ísland eru líklega Ósk Vilhjálmsdóttir, Mörður Árnason og Skúli Helgason. Það verður því fróðlegt að fylgjast með árangri þeirra í flokksvalinu um næstu helgi.
Prófkjör í Norðvesturkjördæmi skiptir líklega litlu hvað þetta varðar, enda engin áform þar uppi um stóriðju eða stórar virkjanir. Ólína Þorvarðardóttir hefur þó gert sig meira gildandi í umræðu um umhverfisvernd en aðrir þingmenn kjördæmisins.
Í Suðurkjördæmi stendur slagurinn um leiðtogasætið á milli Björgvins G. Sigurðssonar og Oddnýjar G. Harðardóttur. Oddný sýndi fram á það á stuttum ráðherraferli að hún var talsmaður málamiðlana og gat náð sátt um rammaáætlun. Björgvin er aftur á móti einn virkasti talsmaður stóriðjustefnunnar innan Samfylkingarinnar og hefur, eftir því sem fréttir herma, reynt að koma í veg fyrir að rammaáætlun verði samþykkt í núverandi mynd á Alþingi. Hann fer nú um Suðurland og reynir að yfirbjóða aðra í virkjanamálum. Sami þingmaður og sagðist einu sinni vera á móti virkjunum í neðri hluta Þjórsár er þeim nú fylgjandi og vill þar að auki ráðast í Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjun í Skaftárhreppi. Það verður því spennandi að sjá hvort Samfylkingarfólk í Suðurkjördæmi velur til forystu talsmann hófsemdar eða stóriðjuöfga.
Það mun ráða miklu um árangur Samfylkingarinnar í komandi kosningum hvor stefnan verður ofan á. Það hefur sýnt sig í skoðanakönnunum að fleiri styðja vernd en virkjanir. Þess vegna geri ég ráð fyrir að stór hópur kjósenda leiti á önnur mið ef Samfylkingin ákveður að fylgja stóriðjustefnu þeirra Kristjáns og Björgvins.“
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Vill Samfylkingin hið Fagra Ísland eða stóriðjustefnuna - það er spurningin“, Náttúran.is: 11. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/11/vill-samfylkingin-hid-fagra-island-eda-storidjuste/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.