Veðurstofan varar við stormi um landið norðan- og vestanvert á morgun.

Gert er ráð fyrir vaxandi norðaustanátt með snjókomu á Vestfjörðum í nótt og víða stormur (norðan 20-25 m/s) þar í fyrramálið.

Einnig er búist við stormi (18-23 m/s) með snjókomu við Breiðafjörð og á Norðurland vestra um og eftir hádegi.

Norðaustanlands fer að snjóa á morgun, þar hvessir seinnipartinn og einnig hvessir á Suðvestur- og Vesturlandi annað kvöld (víða 18-23 m/s). Búast má við mjög hvössum vindhviðum (yfir 40 m/s) við fjöll, einkum hlémegin um vestanvert landið.

Vegfarendum er bent á að færð og skyggni getur versnað hratt og ekkert ferðaveður verður á norðvestanverðu landinu á morgun og eins getur orðið varhugavert að vera á ferð við fjöll vestantil á landinu. Ferðaveður versnar einnig norðaustanlands annað kvöld.

Heldur fer að draga úr vindi þegar líður á laugardaginn, fyrst vestast á landinu.

Veðrið er enn í þróun og er fólk beðið að fylgjast vel með veðurspám.

Vegagerðin varar við hálku víða á landinu og eru vegfarendur hvattir til að kynna sér færð á vegum á vefsíðu Vegagerðarinnar www.vegagerdin.is áður en lagt er af stað.

Birt:
8. nóvember 2012
Tilvitnun:
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra „ Norðan stormur og víða hálka á landinu“, Náttúran.is: 8. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/08/nordan-stormur-og-vida-halka-landinu/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: