Óveður á landinu 2. nóvember staðan kl.15:25
Aðgerðarstjórn almannavarna á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið til starfa. Fræðsluyfirvöld eru hvött til að vinna eftir verklagsreglum um röskun á skólastarfi Aðgerðarstjórn almannavarna á höfuðborgarsvæðinu vilja beina þeim tilmælum til foreldra og forráðamanna skólabarna á höfuðborgarsvæðinu að tryggja að skólabörnin verið sótt í skólann í dag svo þau séu ekki ein á ferð í óveðrinu. Jafnframt hafa skólar verið beðnir um að tryggja að börn yfirgefi ekki skólana nema í fylgd fullorðinna.
Treysti fólk sér ekki til að sækja börn sín við lok skóladags halda þau kyrru fyrir í skólanum þangað til þau verða sótt eða hægt er að senda þau heim með öruggum hætti. Veður er misjafnt eftir svæðum svo foreldrar og skólayfirvöld eru beðin að leggja mat á aðstæður hverju sinni.
Fjöldi aðstoðarbeiðna hefur borist Slysavarnafélaginu Landsbjörg frá því í morgun. Alls á fjórðahundrað aðstoðabeiðnir þar af 300 á höfuðborgarsvæðinu. Yfir 20 sveitir eru að störfum á 18 stöðum á landsbyggðinni. Verst á ástandið á höfuðborgarsvæðinu. Einnig er ástandið slæmt á Suðurland allt frá Þorlákshöfn að Höfn í Hornafirði. Þök eru að losna í heilu lagi, bílar eru að fjúka út af vegum brotnar rúður, tengivagnar, grindverk að brotna, skúrar að fjúka ásamt ýmsu lauslegu.
Ferðaþjónustuaðilar eru hvattir til að upplýsa ferðamenn um hættuna sem fylgir óveðrinu.
Vegna þess fjölda aðstoðarbeiðna sem borist hefur til lögreglu, slökkviliðs og björgunarsveita á höfðuborgarsvæðinu þarf að forgangsraða verkefnum. Fólk beðið að sýna því skilning þó aðstoð berist ekki strax, en beina skal öllum beiðnum um aðstoð til Neyðarlínunnar 112.
Umferðarljós eru sumstaðar óvirk í höfuðborginni og því mikilvægt að ökumenn fari varlega í umferðinni og ennfremur má búast við einhverjum töfum hjá Strætó í dag.
Álag á slysadeildinni hefur jafnframt aukist en töluvert er um beinbrot og önnur meiðsl sem rekja má til óveðursins. Fólk er því beðið að vera ekki fótgangandi nema brýn ástæða sé til.
Olíutankar í Örfirisey hafa skemmst í óveðrinu. Í tönkunum eru um 2 milljónir lítra af díselolíu en ekki er talin hætta á leka úr þeim. Vel er fylgst með tönkunum og eru þeir vaktaðir.
Birt:
Tilvitnun:
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra „Óveður á landinu 2. nóvember staðan kl.15:25“, Náttúran.is: 2. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/02/ovedur-landinu-2-november-stadan-kl1525/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.