Lögregla höfuðborgarsvæðisins beinir því til íbúa að vera ekki á ferðinni að óþörfu. Gangandi vegfarandur hafa tekist á loft og slasast í óveðrinu. Aftakaveður er víða á landinu og verkefni vegna veðurofsans fjölmörg. Alls eru um 150 - 170 björgunarsveitarmenn að störfum á höfuðborgarsvæðinu. Margar aðstoðarbeiðnir hafa borist Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.  Þá eru margir vegir erfiðir yfirferðar á landinu vegna veðursins og ekkert ferðaveður. Sjá nánar á vef Vegagerðarinnar www.vegagerdin.is.

Enn og aftur varar Veðurstofan við norðan vonskuveðri á öllu landinu næsta sólarhring. Búast má við norðanstormi með vindhraða á bilinu 20-28 m/s um allt land og mjög hvassar vindhviður, allt að 55 m/s, við fjöll, einkum á S-verðu landinu frá Snæfellsnesi til Austfjarða. Spáð er talsverðri ofankomu á N- og A-landi í dag.
Vindur fer að ganga niður á öllu landinu um hádegi á morgun (laugardag). Áfram verður þó víða hvasst fram á kvöld, en búist er við að lægi verulega um land allt aðfaranótt sunnudags.
Á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni er búist við stormi í allan dag, en dregur lítið eitt úr vindi um hádegi á morgun (laugardag). Lægir síðan aðfaranótt sunnudags.
Fólk er því beðið um að fylgjast vel með veðurspám.

 

Birt:
2. nóvember 2012
Tilvitnun:
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra „Óveður víða á landinu“, Náttúran.is: 2. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/02/ovedur-vida-landinu/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: