Er bílaþvottastöðin þín umhverfissóði?
Á vef Umhverfisstofnunar er frétt um skýrslu sem stofnunin ásamt heilbrigðisstofnunum sveitarfélaga þ.e. Efnavöruhópur Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga hafa gert um ástand efnanotkunar á bílaþvottastöðvum landsins. Smelltu hér til að lesa skýrsluna.
„Könnuð var framfylgni við þær reglur sem þykja helst eiga við þegar kemur að efnanotkun á bílaþvottastöðvum. Má þar helst nefna að merkingar hættulegra efnavara voru skráðar ásamt varnaðarmerkjunum sem á þeim voru, hvernig staðið er að mengunarvörnum og ýmsum öryggisatriðum. Að þessu sinni var ekki lagt mat á hvort varnaðarmerkingar væru í lagi að öðru leyti.“
Fjöldi stöðva sem falla undir könnunina var 37. Fjöldi stöðva sem nota hættuleg efni* voru 36 og fjöldi hættulegra efna voru 82. Við eftirgrennsla hjá Umhverfisstofnun í dag kom í ljós að bílaþvottastöðvar á landinu eru mun fleiri og að þessi eina bílaþvottastöð sem ekki notar hættuleg eiturefni og var með í könnuninni er bílaþvottastöð Alcoa á Reyðarfirði en sú stöð er einungins ætluð fyrir bíla fyrirtækisins.
„Efnavörumerkingar voru sjaldan aðgengilegar fyrir almenning. Þess ber að geta að í sumum tilfellum var um að ræða þvottastöðvar sem eru ekki ætlaðar almenningi og sumar stöðvar eru sjálfvirkar þannig að viðskiptavinurinn getur ekki komist í snertingu við efnin.“
„Könnunin leiddi í ljós nokkrar brotalamir á mengunarvörnum. Miðað við að nær allar stöðvarnar notuðu hættulegar efnavörur og þar með spilliefni þá er förgun efnaleifa ábótavant. Á 10 stöðvum var hvorki til staðar olíuskilja né sandfang jafnvel þó að á þeim væri notkun tjöruhreinsa allt að 1200 lítrar á ári.“
Engin af þeim stöðvum sem falla undir könnunina hefur umhverfisvottun og greinilegt er að aukin umhverfisvitund almennings á Íslandi hefur ekki enn náð eyrum eigenda bílaþvottastöðva landsins. Úti í hinum stóra heimi hafa þeir víða samkeppnisforskot sem sjá til þess að eiturefni frá stöðvum þeirra rati ekki út í umhverfið. Jafnvel lítið magn af mörgum af þeim eiturefnum sem notuð eru á bílaþvottastöðvum hafa gríðarlega neikvæð áhrif á lífríki sjávar sem svo aftur hefur áhrif okkar eigin líkama, eða barnabarna okkar. Bestu bílaþvottastöðvar í heiminum eru þær sem hreinsa vatnið svo vel að þær geta endurnýtt það, þannig að ekkert fer út í fráveitukerfið.
Það er því löngu kominn tími til að neytendur geri þá sanngjörnu kröfu til bílaþvottastöðva að þær sýni fram á að olíuskiljur og sandfang séu til staðar og að þau efni sem notuðu eru uppfylli reglugerðir og ítrustu kröfur þ.e. sem minnst neikvæð heilsu- og umhverfisáhrif.
Svo virðist sem að bæði Umhverfisstofnun og heilbrigðisstofnanir sveitarfélaga hafi ekki umboð til að hreinlega loka stöðvum sem ekki uppfylla kröfur og því verður að virkja vald neytenda hér eins og á svo mörgum öðrum stöðum í samfélaginu.
Sjá vistvæn innkaupaviðmið Náttúrunnar um bílþvott.
Skáletraður texti er tekinn beint úr skýrslunni.
*Með hættulegum efnavörum er átt við efnavörur sem flokkast sem hættulegar samkvæmt reglugerð nr. 236/1990. Í könnuninni voru undanskildar þær vörur sem teljast vera hættulegar en þarf ekki að merkja með varnaðarmerki.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Er bílaþvottastöðin þín umhverfissóði?“, Náttúran.is: 29. október 2012 URL: http://nature.is/d/2012/10/29/er-bilathvottastodin-thin-umhverfissodi/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.