Að höfðu samráði við vísindamenn, lögreglustjórana á Sauðárkróki, Akureyri og Húsavík hefur ríkislögreglustjóri ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, almannavarnir í héraði, viðbragðsaðilar og vísindamenn hafa allir verið að vinna mikla vinnu síðan hrinan hófst á laugardaginn. Verkefni sem eru lýsandi fyrir vinnu þessara aðila á óvissustig. Því var talið rétt að óvissustigi yrði lýst yfir til samræmis við vinnu og viðbrögð þessara aðila. Óvissustig á við þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað.

Vísindamannaráð almannavarna fundaði í dag og var niðurstaða fundarins að á þessu svæði er þekkt að verða stórir jarðskjálftar, um 2 til 3 á öld. Það er einnig þekkt að stórir skjálftar fylgi jarðskjálftahrinum þó það sé ekki víst. Hrinan sem nú er í gangi er sú öflugasta sem mælst hefur á 20 ára tímabili. Þá er einnig rétt að hafa í huga að stór jarðskjálfti á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu gæti hleypt af stað öðrum stórum skjálfta annað hvort á sama misgenginu eða á Grímseyjarbeltinu sem liggur til norðvesturs frá Kópaskeri.

Fyrir þá landsmenn sem búa á eða við þekkt jarðskjálftasvæði er þetta gott tækifæri til þess að velta fyrir sér hvaða ráðstafanir er hægt að gera til að draga úr tjóni og minnka líkur á slysum vegna jarðskjálfta.

Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra (www.almannavarnir.is) má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr tjóni og/eða slysum í jarðskjálfta, bæði á heimilum og vinnustöðum.

Varnir fyrir jarðskjálfta má finna hér http://almannavarnir.is/default.asp?cat_id=102
Viðbrögð við jarðskjálfta má finna hér http://almannavarnir.is/displayer.asp?cat_id=103

Birt:
24. október 2012
Tilvitnun:
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra „Óvissustigi almannavarna lýst yfir vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi“, Náttúran.is: 24. október 2012 URL: http://nature.is/d/2012/10/24// [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: