Veitingahús án erfðabreyttra lífvera
Fjöldi veitingahúsa um allan heim koma nú til móts við viðskiptavini sína með því að ábyrgjast að hráefnið sem notað er í eldhúsinu sé hreint og óerfðabreytt. Eitt dæmi eru samtök í Þýskalandi „Veitingahús án erfðabreyttra lífvera“ (Gentechnikfreie Gastronomie). Á vef samtakanna segir:
„Markmið þýsks- og evrópsks landbúnaðar er framleiðsla hágæða landbúnaðarafurða. Meira en 80% neytenda vijla afurðir án erfðabreyttra lífvera (GMO-free), sem þýðir einnig að dýr sem ræktuð eru til kjöt- og mjólkurframleiðslu skuli aðeins vera fóðruð á fóðri án erfðabreyttra lífvera. Framboð á óerfðabreyttu hráefni er grundvöllurinn fyrir því að að hægt sé að uppfylla þessar kröfur.
Við viljum opna nýja möguleika fyrir hérlendan landbúnaðar- og matvælaiðnað, með því að vekja nærsveitarhringrásina aftur til til lífsins. Við sem samstarfshópur getum annað eftirspurn neytenda með því gera langtimasamninga um framleiðslumagn beint við framleiðendur. Á móti ábyrgist framleiðandinn dýrahald skv. stöðlum, þ.m.t. fóðrun á fóðri án erfðabreyttra lífvera.
Þetta skulu vera fyrstu skrefin til að snúa þróunininni við, þ.e. frá hnattrænum viðskiptum til nágrennisviðskipta, eftir mottóinu „Úr nágrenni er frábært“ (‚Regional ist genial!’).“ *
Hér á landi væri hægt að stofna samsvarandi samtök sem ynnu þá að því að gera samninga um hráefniskaup sem tryggði þeim að geta boðið viðskiptavinum sínum „ekki erfðabreytt“. Enn sem komið er er þó flest innflutt dýrafóður úr erfðabreyttri ræktun, sem gerir það að verkum að kjöt sem framleitt er með fóðrun á því, þó að litlu leiti sé, kæmi ekki til greina. Ekkert kjúklingakjöt kæmi til greina, ekkert svínakjög og aðeins ein tegund af eggjum, þ.e. egg frá Brúneggjum en hænur hjá Brúneggjum eru ekki fóðraðar með erfðabreyttu fóðri, þó að það sé ekki lífrænt. Hvað grænmetið varðar er nokkuð framboð af því hér á landi þó að það nægi ekki til að anna eftirspurn og spanni ekki allt það úrval sem veitingahús þurfa að bjóða upp á**. Hugsanlega þyrfti að afmarka hve stór hluti framboðs væri úr nágrenni og hve stór innfluttur.
Lífræn ræktun útilokar notkun erfðabreyttra afurða í matlvælaframleiðslu og því væri leikur einn fyrir veitingahús sem bjóða aðeins upp á lífrænt að merkja sig sem „Veitingahús án erfðabreyttra lifvera“, að undangenginni stofnun samnefndra samtaka. En vandamálið er þó það að slík veitingahús eru ekki til hér á landi, enn sem komið er. Grand Hótel hefur fyrst allra veitingaframreiðenda fengið lífræna vottun á hluta af morgunverðarhlaðborði sínu og nokkur veitingahús leggja ríka áherslu á að sem mest af framboði þeirra sé lífrænt. Það er því kannski ekki svo langt í að veitingahús taki sig saman og leggja línurnar fyrir „Veitingahús án erfðabreyttra lifvera“ hér á landi.
*Af gentechnik-freieastronomie.de
**Sjá vöruframboð „Vottað lífrænt“ eftir vöruflokkum hér á Grænum síðum.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Veitingahús án erfðabreyttra lífvera“, Náttúran.is: 21. október 2012 URL: http://nature.is/d/2012/10/21/veitingahus-erfdabreyttra-lifvera/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.