Á undanförnum árum hefur þeim löndum fjölgað sem hafa komið á löggjöf til að hafa hemil á framleiðslu, sem nýtir sér erfðabreyttar lífverur. Allnokkur lönd hafa gengið svo langt að banna erfðabreyttar lífverur og lýst landsvæði sín sem svæði án erfðabreyttra lífvera. Slíkar stefnumótanir og ákvarðanir um að vera án erfðabreyttra lífvera hafa einnig verið gerðar af félagasamtökum, einstökum héruðum, borgum og sveitarfélögum í Evrópu* og víðar; meir en 170 héruð og um 3500 sveitarfélög, auk tuga þúsunda bænda og annarra matvælaframleiðenda hafa mótað sér stefnu og lýst yfir að svæði þeirra og framleiðsla sé án erfðabreyttra lífvera. Grikkland, Ítalía, Austurríki, Sviss, Frakkland og Pólland, eru dæmi um lönd sem hafa sett stranga löggjöf gegn erfðabreyttum lífverum eða bannað alfarið. Af norðurlöndum, riðu Finnar á vaðið með að bann gegn notkun erfðabreyttra lífvera í opinberum rekstri, m.a. í leikskólum, mötuneytum og skólum. Þrjú héruð, 14 sveitarfélög í Finnlandi og 73 býli hafa sett reglur gegn  ræktun erfðabreyttra lífvera. Oppland fylki í Noregi og alþjóðlega frægeymslan á Svalbarða er án erfðabreyttra lífvera. Jamtland sýsla og 7 sveitarfélög í Svíþjóð hafa gert samþykkt um að vera án erfðabreyttra lífvera.

Almennt á Norðurlöndum er ræktun erfðabreyttra lífvera bönnuð, nema á mjög litlum og afmörkuðum svæðum undir ströngu eftirliti. Á Íslandi er  heimilt að rækta erfðabreytt lyfjabygg á opnum svæðum, án mikilla takmarkana og með litlu eftirliti.

Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði (HNLFI) er eitt af fyrstu svæðunum á Norðurlöndum til að lýsa sig án erfðabreyttra lífvera. Svæði félagsins í Hveragerði og í Ölfusi voru yfirlýst svæði án erfðabreyttra lífvera, og málið kynnt á fjölmennri „Evrópuráðstefu um svæði án erfðabreyttra lífvera, líffræðilega fjölbreytni og byggðaþróun*“ í janúar 2006.

Vallanesbýlið á Héraði er fyrsta svæðið í einkaeign hér á landi, sem mótar stefnu um að vera án erfðabreyttra lífvera.

Heimildir:
* gmo-free-regions.org/
** nlfi.is/landsthing-2011

Annar fróðleikur;
Erfdabreytt.net
Non-gm-farmers.com
freywine.com/no-GMO-Mendocino
Gentechnikfreie Regionen

Birt:
20. október 2012
Höfundur:
Birgir Þórðarson
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Birgir Þórðarson „Svæði án erfðabreyttra lífvera“, Náttúran.is: 20. október 2012 URL: http://nature.is/d/2012/10/10/svaedi-erfdabreyttra-lifvera/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 10. október 2012
breytt: 21. október 2012

Skilaboð: