Fyrirlestur Páls Jakobs Líndal lóð á vogarskálar náttúruverndar
Páll Jakob Líndal doktorsnemi í umhverfissálfræði* flutti fyrsta fyrirlesturinn í fyrirlestraröðinni „Frá vitund til veruleika“ í Norræna húsinu í gær en Norræna húsið og Landvernd standa fyrir fyrirlestraröðinni í vetur.
Í fyrirlestri Páls kom fram að gildi náttúrunnar sem endurheimtandi** afls þ.e. til streytulosunar og endurnýjunar krafta mannsins sé veruleg en hann sagði frá nokkrum rannsóknum sem leiddu með óyggjandi hætti í ljós að náttúran sjálf sé manninum nauðsynleg til að hlaða batteríin og takast á við það álag sem borgarsamfélagið leggur honum á herðar.
Gildi náttúrunnar er s.s. marg-vísindalega sannað og ætti þar af leiðandi að fá sæti í öllu debatti rökhyggjusamfélagsins, hvort sem hún fjallar um verndun náttúrunnar, aðgengi sjúklinga og öryrkja að náttúru, náttúrufórnum í nafni stóriðju eða annarra nytja. Ekki aðeins myndi það að virða niðurstöður umhverfissálfræðinnar í verki spara samfélaginu milljarða á milljarða ofan í sjúkra- og endurhæfingarkostnað heldur myndi hún leiða til þess að náttúran sjálf fái meira vægi í hugum fólks og þar með yrði varðveisla hennar trygg fyrir okkur og komandi kynslóðir.
Nokkur umræða varð um það eftir fyrirlesturinn hve mikils virði slíkar rannsóknir hefðu getað verið þegar Kárahnjúkavirkjun var á teikniborðinu og nú siðast þegar vinnan við Rammaáætlun átti sér stað en þá voru „vísindaleg rök“ virkjunaraflanna auðvitað tekin fram yfir „tilfinningalegt raus“ fulltrúa náttúrunnar í nefndum, enda ekki sami mælikvarði settur á vísindalegar staðreyndir og „sveitarómantík“ enda galt Rammaáætlun fyrir skort á vísindalegum sönnunargögnum um ágæti náttúrunnar. En enn getum við snúið vörnum í sókn og unnað náttúrunni með rökhyggjuna að vopni. Næg eru verkefnin framundan!
*Skilgreining á umhverfissálfræði er: Sú grein innan sálfræði sem fæst við samspil fólks og umhverfis. Þetta samspil getur verkað í báðar áttir, þannig að fólk hefur áhrif á umhverfi sitt og umhverfið hefur áhrif á fólk, hegðun þess og reynslu.
**Endurheimt: Endurnýjun líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar getu sem hefur minnkað vegna fyrirhafnar við að mæta kröfum hversdagsins. Hartig, 2004.
Sjá fyrirlestur Páls Jakobs sem Pdf-skjal. Myndirnar eru úr fyrirlestrinum, skýringar á þeim er að finna þar.
Páll var einnig í viðtali á Ríkisútvarpinu í gær. Hlusta á viðtalið hér.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Fyrirlestur Páls Jakobs Líndal lóð á vogarskálar náttúruverndar“, Náttúran.is: 18. október 2012 URL: http://nature.is/d/2012/10/18/fyrirlestur-pals-jakobs-lindal-lod-vogarskalar-nat/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.