Erfðabreytt fæðuefni og sjúkdómar
Athugasemd vegna greinar prófessors Séralinis o.fl. (2012) um eituráhrif Roundups og erfðabreytts maís.*
Á síðustu árum hefur aukist nokkuð fjöldi áreiðanlegra vísindalegra rannsókna, bæði á áhrifum erfðabreytinga og plöntueiturs í matvælum á heilsu neytenda, sem og á áhrifum þessarar tækni á allt lífríki jarðarinnar**. Ofannefnd fræðigrein var birt fyrirfram á netinu þ. 19. september s.l. Greinarinnar hafði verið beðið með töluverðri eftirvæntingu, og birtingu hennar því greinilega hraðað, kannski fullmikið. Þörf almennings fyrir afgerandi niðurstöður um þessi mál endurspeglast hins vegar í þeirri athygli, sem hún hefur vakið.*** Þar sem lesendur skiptast fyrir fram í tvo hópa, hafa viðbrögðin við greininni einnig verið nokkuð blönduð (sbr. neðan).
Aðalmarkmið rannsóknarinnar var að kanna tengsl líffræðilegra breytinga hjá dýrum (rottum) á lífsskeiði þeirra við neyzlu þeirra á erfðabreyttum maís, EB, og/eða plöntueitrinu Roundup, R. Í þessum tilgangi voru gerðar umfangsmiklar líffræðilegar rannsóknir, lífsýnagreinining, krufning og lýsingar á sjúkdómseinkennum. Fjöldi dýra í rannsókninni var tiltölulega lítill, miðað við hvað rannsóknin var margslungin. Alls voru í tilrauninni 200 albínórottur, 20 í samanburðarhópi, og 180 í níu tilraunahópum, þ.e. 20 í hverjum hópi, með jafnri kynjaskiptingu í öllum hópum. Enda þótt kraftmiklar tölfræðilegar greiningaraðferðir hafi verið notaðar við úrvinnslu gagnanna, var yfirleitt ekki tilkynnt um marktækni. Það takmarkar nokkuð þær ályktanir, sem hægt er að draga af niðurstöðunum.
Rannsóknin er hins vegar einstök í sinni röð, bæði vegna þess að rannsóknartíminn spannar yfir líf dýranna frá fæðingu til dauða, og þess hversu nákvæmlega þróun áhrifa eiturefnanna á heilsu hvers og eins dýranna á öllu þessu tímabili er rakin. Greinin er nokkuð flókin og erfið aflestrar, en aðalniðurstöðurnar eru þó skýrar:
i. Áhrifin af neyslu EB maís og/eða Roundup, R, voru kynbundin: Sjúklegu áhrifin af EB og R komu töluvert greinilegar fram hjá kvenkyns rottum en karlkyns.
ii. Dauðsföll voru töluvert algengari hjá kvenkyns rottum í EB og R hópunum (sbr. mynd 1, bls. 4 í fyrirfram birtri pdf-gerð greinarinnar).
iii. Æxlamyndun hjá kvenkyns rottum, einkum í mjólkurkirtlum, kom fram fyrr í lífinu og var langtum algengari í EB og R hópunum (sbr. mynd 2, bls. 5).
iv. Hjá karlkyns rottum komu æxlamyndun og aðrir sjúkdómar og skemmdir einkum fram í lifur dýranna.
v. Hjá báðum kynjum voru líffæraskemmdir í heiladingli, nýrum og gallrásum (til meltingarfæra) mun algengari og alvarlegri í EB og R hópunum en samanburðarhópnum (sbr. töflu 2, bls. 5).
vi. Nýrnaskemmdir hjá kvendýrum komu einkum fram í minnkuðu þvagláti hjá dýrum í öllum R hópunum, og auknu þvagláti í hópnum með hæsta EB maís hlutfallinu (sbr. töflu 3, bls. 9).
Niðurstöðurnar benda eindregið til alvarlegra eituráhrifa Roundup og neikvæðra áhrifa af neyzlu erfðabreytts maís. Þessi síðari áhrif má e.t.v. fremur rekja til ýmissa erfðatengdra breytinga í sjálfum maísplöntunum, sem koma fram samfara auknu þoli gegn plöntueitrinu. Greinarhöfundar draga þær ályktanir, að Roundup hafi bein eituráhrif á marga innkirtla dýranna, en að erfðabreytingar í maísnum valdi alvarlegum truflunum á meltingu og meltingarfærum og efnaskiptingu dýranna. Eitt svar þessarar tegundar rotta við skaðlegum áreitum, s.s. umhverfismengun, er oft einmitt æxlamyndun, og því eðlilegt, að illkynjuð og/eða góðkynjuð æxli myndist hjá þeim, þegar þau verða fyrir eitrun. Fá dýranna hefðu hins vegar sýnt sjúkdómseinkenni, ef engin eituráhrif hefðu verið fyrir hendi.
Íslenskir líftæknimenn og starfsbræðrur þeirra hjá erlendum líftæknifyrirtækjum, s.s. Monsanto, sem framleiðir Roundup, hafa haldið því fram, að þessar og fyrri niðurstöður rannsóknarhóps Séralinis séu marklausar.**** Þetta er alls ekki rétt. Ofannefndir aðilar hafa mikilla sérhagsmuna að gæta, þar sem líftækni og framköllun breytinga á erfðamengi lífvera er þeirra lifibrauð. Óábyrg framkoma þessa fagfólks, í opinberri umræðu, sem og í umgengni við náttúruna, gefur því lítið tilefni til að treysta hnakkakertum fullyrðingum og ljótum orðum, sem það lætur frá sér fara um tilraunir sem þessa og vísindamennina, sem gera tilraunirnar.
Það er ekki ljóst af niðurstöðum þessarar rannsóknar hver líklegustu áhrifin myndu verða hjá fólki, sem neytir EB maís og Roundups, hvort þau yrðu svipuð því, sem fram kom hjá rottunum í rannsókninni, eða hvort áhrifin væru líkleg til að verða meiri eða minni hjá mannfólkinu en svo „einföldum“ dýrum sem rottum. Þó hefur verið sýnt fram á ofnæmisáhrif hjá fólki vegna neyslu EB maísflaga í tiltölulega litlum skömmtum, en ekki er fullljóst hvaða efni önnur eru í flögunum, sem kalla fram þessi viðbrögð - áhrif erfðabreytinga á lífræna samsetningu maískornanna, eða afgangur af Roundup, sem ekki hafði verið skolað af kornunum, áður en þau urðu að flögum. Niðurstöðurnar hér benda til þess, að bæði eitrið og erfðabreytingarnar hafi skaðleg áhrif.
Eins og með allar aðrar mikilvægar rannsóknarniðurstöður, er nauðsynlegt að fylgja niðurstöðum þessarar rannsóknar eftir og sannreyna þær í nýjum tilraunum, þar sem vel er gætt að öllum þeim atriðum, sem e.t.v. mætti finna tilefni til að gagnrýna.
Valdimar Briem
Mynd: Hluti af mynd 3, bls. 6, sem sýnir vöxt æxla hjá rottum, sem neytt höfðu EB maís: GMO, eða plöntueiturs: R, eða beggja: GMO+R.
* Long term toxicity of a Roundup herbicide and a Roundup-tolerant genetically modified maize. Höf. Gilles-Eric Séralini o.fl. Greinin birtist bráðlega í tímaritinu Food and Chemical Toxicology. Hægt er að nálgast hana á netinu fr.o.m. 19 September 2012 á vef ScienceDirect http://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0278691512005637 (ath. að blaðsíðunúmer í núverandi pdf-gerð, koma ekki til með að standast á við númerin eftir birtingu).
** Ágætt yfirlit, að vísu ársgamalt, má finna á heimasíðu samtakanna Natural Society: naturalsociety.com/how-biotech-corporations-and-gmo-crops-are-threatening-the-environment-and-humankind-alike/.
*** Yfirlit yfir innlegg í íslenska fjölmiðla má finna á natturan.is/frettir/7212/: Nýleg orð í belg á tímabilinu 19.- 27. september; sjá t.d. /natturan.is/efni/7212/, natturan.is/frettir/7222/, natturan.is/frettir/7223/, natturan.is/frettir/7225/
**** Frétt um birtingu greinarinnar var birt í af Rúv, ruv.is/frett/skoda-hugsanlegan-krabbameinsvald, tveim dögum eftir birtinguna á netinu. Strax eftir það voru tekin viðtöl af Rúv við íslenska líftækna, sem berjast hatrammlega gegn takmörkunum á útiræktun erfðabreyttra matvæla: ruv.is/frett/erfdabreytt-matvaeli-ekki-krabbameinsvaldandi, ruv.is/frett/otraust-rannsokn-a-erfdabreyttum-mais.
Birt:
Tilvitnun:
Valdimar Briem, dr. phil. „Erfðabreytt fæðuefni og sjúkdómar“, Náttúran.is: 3. október 2012 URL: http://nature.is/d/2012/10/03/erfdabreytt-faeduefni-og-sjukdomar/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.