Lítill stuðningur við mannvirkjagerð á hálendinu
Rúmur þriðjungur almennings er andvígur fyrirhugaðri háspennulínu Landsnets yfir hálendið um Sprengisand, en nokkru færri, eða 28,6%, eru henni fylgjandi. Þetta kemur fram í könnun sem Capacent Gallup vann fyrir Landvernd.
Í könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir tæpu ári síðan reyndust 56% hlynnt því að þjóðgarður yrði stofnaður á miðhálendinu en 17,8% voru því andvíg. Lítill stuðningur er því meðal almennings við virkjanaáform og byggingu háspennulína á hálendinu.
Skipulagsstofnun hefur nýverið auglýst tillögu að landsskipulagsstefnu 2013-2024. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir tveimur mannvirkjabeltum þvert yfir hálendið þar sem gert er ráð fyrir meiriháttar framkvæmdum. Annað belti er fyrirhugað um Kjöl en hitt um Sprengisandsleið. Landsnet hefur lýst áformum sínum um að reisa háspennulínu fyrir stóriðju á Sprengisandsleið með tilheyrandi vegagerð og Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur undirbúa virkjanir á þessum svæðum. Almenningi gefst nú tækifæri til að senda Skipulagsstofnun athugasemdir við tillögu að landsskipulagsstefnu. Þær þurfa að berast eigi síðar en 20. nóvember á netfangið landsskipulag@skipulagsstofnun.is.
Birt:
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Lítill stuðningur við mannvirkjagerð á hálendinu“, Náttúran.is: 2. október 2012 URL: http://nature.is/d/2012/10/02/litill-studningur-vid-mannvirkjagerd-halendinu/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.