Pottar og pönnur
Mikið hefur verið í umræðunni í hvaða málmum best er að elda eða baka mat. Ál er ekki lengur talið ákjósanlegt efni í potta og pönnur. Ástæðan er sú að þrátt fyrir vinsældir álpotta hér áður hefur nú komið í ljós að álið tærist og fer út í matinn, sem við síðan neytum. Álið getur safnast fyrir í líkamanum og haft áhrif á heila og taugakerfi.
Teflonhúðaðir stálpottar og pönnur eiga markaðinn í dag enda auðvelt að elda á þeim því maturinn festist ekki við þá. Þeir geta þó verið varhugaverðir en teflonið verður þó aðeins skaðlegt ef það er byrjað að veikjast og skemmast og eiturgufur farnar að losna úr læðingi, sem skeður aðeins ef hitinn fer yfir 350 °C. Það er þó sjaldgæft að hitinn verði það hár á teflonpönnum og því lítið að óttast. Kjöt er t.d. steikt við ca. 220 °C og það rýkur úr olíu við 200°C. Sé teflonhúðin aftur á móti greinilega farin að skemmast er vissara að hætta að nota gripinn.
Emeleraðir járnpottar eru góður kostur en glerið einangrar alla mögulega smitun úr járninu í matinn. Ef emeleringin er farin að gefa sig (brotna) er betra að leggja pottinum alveg.
Stálpottar og pönnur með sérstökum lagskiptum botni eiga að gera vatn næsta ónauðsynlegt við suðu og fitu við steikingu. Slíkir pottar og pönnur hafa þó þann galla að vera mjög dýrir og það er því ekki á allra færi að eignast þá.
Ágætis lausn eru þykkir og góðir pottar og pönnur úr pottjárni. Þeir eru svo sterkir að þeir geta enst út lífið, sé vel hugsað um þá. Einnig ljá þeir matnum góðan skammt af járni sem oft er hörgull á í fæðunni.
Glerpottar og eldföst mót úr leir eru einnig talin vera mjög góð lausn.
Keramikpottar geta innihaldið blý sem ekki er gott að fá í matinn en flestir eru þeir skemmtilega náttúrulegir og oft listafallegir.
Eldavélar með spanhellum útheimta potta sem eru ekki úr áli og hafa þykkan járnbotn. Hægt er að prófa hvort pottar henti fyrir spanhellur með því að bera segulstál að þeim. Ef segulstálið festist við pottinn eru hægt að nota þá á spanhellum. Pottar og pönnur sem eru sérstaklega gerðir fyrir spanhellur liggja rétt á hellunni og nýta orkuna best.
Út frá sjónarmiði orkusparnaðar:
- Best er að nota þá stærð af potti sem þú þarft hverju sinni og velja þá hellu sem passar þeim potti.
- Velja skal potta sem snerta eldavélarhelluna allan hringinn.
- Það skiptir máli að loka pottinum meðan á suðu stendur.
- Best er að nota ekki meira vatn á matinn en þú þarft til þess að sjóða hann.
- Ef þú hefur tíma þá er oftast nóg að láta suðuna bara koma upp nokkrum klukkutímum fyrir matmálstíma og leyfa matnum síðan að liggja í pottinum með lokinu á. Það er varla hægt að hugsa sér betra orkusparnaðarráð og það virkar. Prufaðu bara!
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Pottar og pönnur“, Náttúran.is: 17. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2007/06/22/pottar-pnnur/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. júní 2007
breytt: 17. maí 2014