Sýning um fuglana, gróðurinn og mannlífið í Vatnsmýrinni, um náttúruna í borginni og mikilvægi endurheimtar votlendisins var opnuð við athöfn í gær. Sýningin er samvinnuverkefni á milli Norræna hússins, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands og felst í að virkja friðinn í varplandinu, opna rásirnar, auka vatnsflæðið um svæðið og tengja það hringrás vistkerfanna. Í raun hefur verið settur upp náttúruskóli og náttúruminjasafn í sýningarsölum Norræna hússins, sýningu sem er ekki aðeins frábærlega vel hönnuð heldur er fræðslugildi hennar ótvírætt og mikill fengur fyrir börn í 4., 5. og 6.bekk í skólum Reykjavíkur sem hver á fætur öðrum fá nú að koma í Náttúruskóla Norræna hússins til að læra um lífið í Vatnsmýrinni. Fyrir þjóð sem hefur ekkert náttúrugripasafn til að bjóða uppvaxandi kynslóðum upp á að heimsækja er þetta gríðarlega mikilvægt framtak. Fleiri gætu tekið sé það til fyrirmyndar.

Sýningin er opin fyrir almenning alla daga nema mánudaga þar sem fjölskyldur geta komið og skoðað sýninguna og starfsmaður frá Norræna húsinu fer með þeim í gegnum sýninguna og hjálpar þeim við að leysa ýmiss verkefni tengd svæðinu.
Sýningin mun standa til 4. nóvember 2012 en hugmyndir eru uppi um að finna lausn á því að halda sýningunni áfram eftir það.

Um sýninguna:
Á sýningummi eru dregin upp brot úr marglaga lífi og sögu Vatnsmýrarinnar. Hún er hugsuð til að efla vitund nemenda og alls almennings um náttúruna innan í borginni og borgina innan í náttúrunni.

Gamalt iðnaðarrusl, ágeng dýr og stórvaxnar jurtir hafa stuðlað að líffræðilegri einhæfni og raskað jafnvægi lífríkisins. En mesti spillikötturinn af öllum er mannskepnan. Fá vatnasvæði í heiminum eru enn óspillt. Um áttatíu prósent alls votlendis hér á landi er nú ónýtt og virkar ekki. Mýrar hafa í stórum stíl verið þurrkaðar upp og ræstar fram vegna búskapar og borga. En á seinni hluta tuttugustu aldar tóku þjóðir heims sig saman og skrifuðu undir samning um verndun votlendis.

Hvers vegna? Á sýningunni um Vatnsmýrina er leitast við að svara þeirri spurningu.

Halldór Laxness skrifaði grein árið 1970 til varnar votlendinu og líkti mýrunum við lungu landsins vegna áhrifa þeirra á andrúmsloftið.

Mýrar eru mjög mikilvægar vatnshringrásinni og því hefur þeim einnig verið líkt við nýru. Og ef líkja á landslagi borgarinnar við líkama þá mætti alveg segja að Vatnsmýrarsvæðið hafi um tíma verið gert að endastöð í meltingarvegi borgarinnar því þangað var skólpinu veitt og þar voru ruslahaugarnir.

Skemmtilegra væri þó að hugsa sér Vatnsmýrina sem fæðingarveg borgarinnar. Skúli fógeti, sem kalla má ljósmóður Reykjavíkur, sótti mó í mýrina, móinn sem varð eldsneyti uppbyggingar og nýsköpunar.
Vatnsmýrina mætti jafnvel ímynda sér sem heilabú borgarinnar; sameiginlega undirmeðvitund borgarbúa þar sem gamlir draumar geymast og nýir fæðast; staður samvisku og skilnings á heildarsamhengi. Þegar við leggjum höfuð í bleyti rifjast upp möguleikar mýrarinnar.

Á vef Norræna hússins er hægt að fylgjast með lífinu í fuglafriðlandinu í gegnum vefmyndavél sem hægt er að snúa á alla kanta.

Ljósmyndir: Efst; við innganginn að sýningunni í Norræna húsinu. í miðið; brot úr veggmynd um þróun Vatnsmýrarinnar en hún þjónaði eitt sinn þeim tilgangi að vera kartöflugarður Reykvíking. Neðst; Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur kom á opnun sýningarinnar, ásamt fylgdarmanni, siglandi á kajak efti nýja sýkinu í Vatnsmýrinni.

Birt:
14. september 2012
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Lífið í Vatnsmýrinni“, Náttúran.is: 14. september 2012 URL: http://nature.is/d/2012/09/14/lifid-i-vatnsmyrinni/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: