Á RIFF, Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík sem haldin verður dagana 27. september – 7. október verður kastljósinu beint að umhverfismálum í átta heimildarmyndum sem sýndar eru í flokknum „Öðruvísi morgundagur“.

Fljóðbylgjan og kirsuberjablómið (The Tsunami and the Cherry blossom)
Eftirlifendur á þeim svæðum sem urðu hvað verst úti þegar flóðbylgjan skall á Japan í fyrra finna hjá sér hugrekki til að endurreisa og endurlífga heimabyggð sína þegar hátíð kirsuberjablómsins hefst.  Magnað sjónrænt ljóð um hverfulleika lífsins og lækningamátt blómsins sem Japanir elska. Tilnefnd til Óskarsverðlauna.

Lifi andpólarnir! (Vivan las antipodas)
Hvar myndirðu enda ef þú græfir göng beint í gegnum jarðkringluna? Fjöldi rithöfunda – og barna – hafa spurt sig að þessu, en rússneski leikstjórinn Victor Kossakovsky svarar spurningunni í þessari mynd. Hann heimsækir fjögur pör sem eru á gagnstæðum punktum á jörðinni: Argentínu og Kína, Spán og Nýja-Sjáland, Hawaii og Botswana, og Rússland og Chile. Landslagið og fólkið á hverjum stað ræður framvindunni og tónlistin lætur okkur vita hvar við erum stödd hverju sinni.

Vetrarhirðingjar (Winter nomads)
Carole og Pascal hefja 600 km langa vetrarreisu sína milli beitilanda á mótum Frakklands og Sviss með þrjá asna, fjóra hunda og átta hundruð fjár. Þau bjóða kuldanum og snjónum birginn þótt þau hafi ekkert nema ábreiðu úr striga og loðskinn til að skýla sér að næturlagi. Þetta er ævintýramynd úr hjarta svæðis sem er að ganga gegnum miklar breytingar.

Lokapöntun við vinina (Last call at the Oasis)
Myndin varpar ljósi á mikilvægi vatns í okkar daglega lífi. Hún flettir ofan af núverandi fyrirkomulagi í umgengni og dreifingu vatns og sýnir slæm áhrif þess fyrirkomulags á mörg samfélög. Í myndinni kemur baráttukonan Erin Brockovich við sögu auk virtra sérfræðinga eins og Peter Gleick, Alex Prud’homme, Jay Famiglietti and Robert Glennon. Myndin er frá sama fyrirtæki og færði okkur myndirnar Food, Inc og An Inconvenient Truth.

Á eftir ísnum (Chasing ice)
Ljósmyndarinn James Balog var efins um gróðurhúsaáhrifin þegar hann hélt á norðurpólinn til að mynda ísbreiðuna þar fyrir sjö árum. Í dag er hann eldheitur baráttumaður gegn hlýnun andrúmsloftsins. Með aðstoð ljósmyndatækninnar sýna Balog og Orlowski okkur jökla hopa á örfáum mánuðum og heilu ísfjöllin hreinlega gufa upp svo áhorfandinn situr gapandi eftir. Á eftir ísnum er óyggjandi - en gullfalleg - sönnun þess að andrúmsloft jarðar breytist með leifturhraða.

Pad Yatra: Ferðin græna (Pad Yatra: A green Odyssey)
Ferðin græna er ævintýraför 700 einstaklinga sem fóru um Himalaya-fjöllin með það fyrir augum að bjarga jökullendinu sem nú er á vonarvöl vegna gróðurhúsaáhrifanna. Göngugarparnir sýna umhverfinu samkennd með því að ganga þorp úr þorpi og kenna með góðu fordæmi. Þeir lifa af slys, veikindi og hungur og standa að lokum uppi með hálft tonn af plasti á bakinu. Þannig hefst græn bylting uppi við þak heimsins sem á sér engan líka.

Læti (Raas)
Fyrir mann sem er ofurnæmur á hljóð verður tilveran í Tel Aviv líkust vítisvist. Þegar hann áttar sig á því að hljóð geti samkvæmt vísindunum drepið og að nasistar hafi á sínum tíma þróað gereyðingarvopn sem nýttu sér hljóðbylgjur ákveður hann að grípa til sinna ráða. Hann býr til sérstakt eftirlitstól til að fylgjast með og stjórna hljóðinu sem ræðst í sífellu inn til hans af götunni og úr nærliggjandi íbúðum. Brátt þarf hann að gjalda það dýru verði…

Niðri í austri (Down East)
Í Gouldsboro, smábæ í Maine, hafa hjólin alfarið stöðvast eftir að sardínuverksmiðjan lokaði. Atvinnulausir íbúar bæjarins, sem eru flestir um sjötugt, vilja ekkert heitar en að hefja störf að nýju svo þegar ítalski innflytjandinn Antonio Bussone hyggst opna humarvinnslu í plássinu tekur vinnuaflið honum opnum örmum.  En hvers vegna reynist Antonio þá svona erfitt að fjármagna verkið með peningi úr björgunarsjóði ríkisins?

Sjá nánar um kvikmyndirnar á vef Riff.is.

Birt:
7. september 2012
Höfundur:
RIFF
Tilvitnun:
RIFF „Öðruvísi morgundagur - heimildarmyndir um umhverfið á RIFF“, Náttúran.is: 7. september 2012 URL: http://nature.is/d/2012/09/07/odruvisi-morgundagur-heimildarmyndir-um-umhverfid-/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: