Talsmaður Landsnets segir meiri líkur en minni á því að einhverjar jarðir verði teknar eignarnámi svo unnt verði að reisa svonefndar Suðvesturlínur. Landeigandi segir að með auknum þrýstingi á landeigendur sé farið á bak við sveitarstjórn sem vinni að skipulagsbreytingum sem útiloki möstrin.

Landsnet hefur í rúmt ár reynt að ná samningum við landeigendur á Reykjanesi um að fá að reisa háspennumöstur. Eydís Franzdóttir, ábúandi í Landakoti á Vatnsleysuströnd, segir að fyrirtækið hafi haft samband við marga eigendur í þessari viku og gefi stuttan umhugsunarfrest. „Þeir hafa verið að hamast í landeigendum og reyna að fá þá einn og einn á fund til sín til þess að semja um lagningu háspennulínu í trássi við vilja bæjarstjórnarmeirihluta sveitarfélagsins.“

Sveitarfélagið, sem er einn landeigandanna sem Landsnet reynir að semja við, hefur lagst gegn háspennumöstrunum og vinnur að því að breyta aðalskipulagi þannig að ekki verði lengur gert ráð fyrir háspennulínum ofan jarðar. Landsnet hefur ekki sótt um framkvæmdaleyfi fyrir línunum. Eydís segir að Landsnet fari fram á afnot af landinu í ótakmarkaðan tíma. „Og þeir setja þá í þá stöðu að þeim er ætlað að svara núna í þessari viku af eða á hvort þeir taka þessu tilboði eða ekki og að öðrum kosti þá hóta þeir því að landið verði tekið eignarnámi og þá fái þeir bótagreiðslu sem sé mun lægri en þetta tilboð.“

Nils Gústavsson, deildarstjóri hjá Landsneti, segir að nú sé reynt til þrautar að ná samningum um afnot af þeim tuttugu jörðum sem um ræðir. Alls eru 140 manns eða fyrirtæki sem eiga þær. „Þá er bara eðlilegt næsta skref eftir slíkt þegar búið er að reyna til þrautar að fara í og óska eftir eignarnámi en það er sem sagt búið að semja að fullu um níu jarðir af þessum tuttugu og að hluta til um sex jarðir til viðbótar,“ segir Nils. Hann segir að búið sé að reyna til þrautar að semja um ákveðnar jarðir og það virðist ekki ganga upp. Aðspurður hvort það þýði að líkurnir aukist eða minnki á því að farið verði í eignarnám svarar hann: „Þannig að þar má segja að það séu meiri líkur en minni.“

Ljósmynd: Keilir á Reykjanesi, Árni Tryggvason.

Birt:
6. september 2012
Höfundur:
Rúv
Tilvitnun:
Rúv „Meiri líkur en minni á eignarnámi“, Náttúran.is: 6. september 2012 URL: http://nature.is/d/2012/09/06/meiri-likur-en-minni-eignarnami/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: