Landsnet fer hamförum um landið með „mannvirkjabeltum"“
Á fundi sem Ferðaklúbburinn 4x4 sem haldinn var í fyrrakvöld kom fram að í skipulagi miðhálendisins er gert ráð fyrir svonefndum „mannvirkjabeltum“ sem liggja eiga milli Norðurlands og Suðurlands um Kjöl og Sprengisand og munu búta miðhálendið í sundur í þrjá meginbúta og stúta ásýnd þessara tveggja svæða, Kjalar og Sprengisands, algerlega.
Mannvirkjabeltin munu samanstanda að keðju háspennulína, vega og virkjana sem munu hafa gríðarleg áhrif á ímynd miðhálendisins og gera að engu þann vilja meirihluta aðspurðra í skoðanakönnun, að á hálendinu verði samfelldur þjóðgarður.
En Landsneti nægir ekki að fara í herfarir um hálendið heldur er hamast við að koma á lagningu tvöfaldrar risaraflínu suður til Helguvíkur, svonefndri Suðvesturlínu, og frá vestri til austurs um Norðurland.
Línan syðra mun meðal annars eiga að liggja þvert yfir vatnsverndarsvæði Gvendarbrunna og Kjarnaskóg við Akureyri þar sem hún mun trufla aðflug til flugvallarins.
Sagt er að þetta sé gert til að tryggja afhendingaröryggi til venjulegra notenda en auðvitað þarf ekki svona risalínur til þess til dæmis að tryggja Norðlendingu þau sextán megavött sem þeir þurfa, heldur verða þessar línur hafðar svona stórar til að flytja raforku fyrir stóriðjuna og hinn stóra draum Landsnets og virkjanamanna, sæstrenginn til Skotlands.
Á spýtunni hangir staðfastur vilji til að meira en tvöfalda orkuöflun Íslendinga svo að í stað þess að við framleiðum fimm sinnum meira rafmagn en við þurfum til venjulegra nota okkar sjálfra, verði framleitt tíu sinnum meira rafmagn en við þurfum!
90% orkunnar eiga að fara til stóriðjufyrirtækja i eigu útlendinga sem flytja ágóðann úr landi.
Aðferðin á Suðurnesjum er gamalkunnug, að vaða af stað án þess að hafa gengið frá samningum við tólf sveitarfélög sem málið snertir og án þess að hafa orku í hendi og stilla mönnum síðan upp við vegg með hótunum.
Þær hótanir dynja nú á landeigendum þar sem Suðvesturlína á að liggja, þar sem þeim er gert það ljóst að ef þeir makki ekki rétt, verði landareignir þeirra einfaldlega teknar af þeim með eignarnámi.
Væntanlega munu sömu hótanir dynja á þeim sveitarfélögum og landeigendum fyrir norðan sem eru byrjaðir að mögla.
Af bloggsíðu Ómars Ragnarssonar http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1256235/.
Ljósmynd: Mastursfótur, Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Ómar Ragnarsson „Landsnet fer hamförum um landið með „mannvirkjabeltum"““, Náttúran.is: 6. september 2012 URL: http://nature.is/d/2012/09/06/landsnet-fer-hamforum-um-landid-med-mannvirkjabelt/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.