Náttúruverndarinn Guðmundur Páll Ólafsson er látinn
Guðmundur Páll Ólafsson náttúruverndari og doktor í sjávarlíffræði með meiru er látinn. Guðmundur Páll var um áratuga skeið ein skærasta fyrirmynd íslenskra náttúruverndarsinna en hann hefur bæði unnið að því að fræða almenning um náttúru Íslands með bókum sínum og ljósmyndum sem og tekið þátt í áralöngum og ströngum báráttumálum s.s. Kárahnjúkabaráttunni og baráttunni fyrir verndun Þjórsárvera. Guðmundi Páli tókst að sameina líffræði, vist- og jarðarkerfi í heilsteypta náttúrusýn, nátengda manni og menningu. Helst er hægt að líkja áhrifum Guðmundar Páls á samtímamenn sína við þau áhrif sem íslenskir landslagsmálarar höfðu á sýn islenskrar alþýðu á landið sitt um miðbik síðustu aldar.
Við aðstandendur Náttúran.is þökkum Guðmundi Páli fyrir allt það sem hann hefur gert fyrir íslenska náttúru. Um árabil hefur hann verið sál og hjarta náttúruverndara á Íslandi og farið á undan með slíku fordæmi að við sem eftir lifum getum ekki annað en staðið vaktina, þar til sigur vinnst. Guðmundur Páll hefur sannað að líf eins manns getur haft svo mikil áhrif að líf okkar hinna breytist einnig.
Guðmundur Páll Ólafsson 1941 - 2012
Hann stundaði háskólanám og ýmis störf í Bandaríkjunum á árunum 1960–1966, lærði meðal annars köfun, myndlist og líffræði og lauk B.Sc gráðu frá Ohio State University. Frá 1966 til 1968 var hann skólastjóri og kennari við Barna- og miðskóla Blönduóss en frá 1968–1970 var hann líffræðikennari við Menntaskólann á Akureyri. Á árunum 1970–1972 lærði hann ljósmyndun við Stockholms Fotografiska Skola og stundaði doktorsnám í sjávarlíffræði við Stokkhólmsháskóla á árunum 1971–1974 ásamt rannsóknum á fjörulífi við Flatey á Breiðafirði. Árin 1970–1971 samdi Guðmundur Páll námsefnið Líf og umhverfi, ætlað 12 ára nemendum grunnskóla, og er fyrsti vísirinn að seinni stórvirkjum hans, tilraun til að sameina náttúrufræði í eina heilsteypta sýn.
Á árunum 1972–1976 starfaði hann í Flatey á Breiðafirði, var skólastjóri og kennari, stundaði náttúru- og heimildaljósmyndun og kvikmyndagerð um þúsund ára sambúð manns og náttúru í Flateyjarhreppi. Næsta áratuginn starfaði hann jöfnum höndum við köfun, hönnun bóka, trésmíðar, fiskveiðar og teikningar. 1984–1985 stundaði Guðmundur Páll svo listnám við Columbus College of Art and Design í Ohio í Bandaríkjunum, en hefur síðan starfað samfellt sem rithöfundur, náttúrufræðingur, náttúruljósmyndari, virkur náttúruverndari og fyrirlesari heima og erlendis.
Hann hefur hlotið margvíslega viðurkenningu fyrir verk sín, hlaut m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2001 fyrir Hálendið í náttúru Íslands og var tilnefdur til sömu verðlauna árið 1990 fyrir Perlur í náttúru Íslands og 1995 fyrir Ströndina í náttúru Íslands. (Texti um lífshlaup af vef forlagsins).
Ljósmyndir: Efri, Guðmundur Páll tekur við blómvendi í tilefni útnefningarinnar Nátttúruverndarinn, sem er ný viðurkenning náttúruverndarsamtaka sem veitt er fyrir ötula náttúruverndarbaráttu á Íslandi. Náttúruverndarþing 2012. Það er til marks um mikilvægi Guðmundar Páls í augum náttúruverndarsinna að hann hafi fyrstur fengið þessa viðurkenningu.
Neðri myndirnar tvær eru úr myndskeiði þar sem Guðmundur Páll Ólafsson rífur myndir úr eigin bók Perlur í náttúru Íslands (enda sé þegar búið að eyðileggja þær eða þær í hættu, að hans sögn). Ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.
Sjá framsögu Guðmundar Páls í pallborði á fyrirlestri Vandana Shiva í Reykjavík fyrir ári síðan.
Sjá framsögu Guðmundar Páls á Umhverfisþingi umhverfisráðuneytisins sl. haust.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Náttúruverndarinn Guðmundur Páll Ólafsson er látinn“, Náttúran.is: 31. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/30/natturuverndarinn-gudmundur-pall-olafsson-er-latin/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 30. ágúst 2012
breytt: 31. ágúst 2012