Mjólkurbúið Kú ehf fær vottun til lífrænnar ostaframleiðslu
Vottunarstofan Tún hefur staðfest að Mjólkurbúið Kú ehf. uppfylli reglur um framleiðslu á lífrænum ostum. Vottorð þessa efnis var formlega afhent í mjólkurvinnslu félagsins í Hafnarfirði í morgun, fimmtudaginn 30. ágúst. Mjólkurbúið Kú ehf. er fyrsta sérhæfða vinnslustöðin sem fær vottun til lífrænnar ostaframleiðslu hér á landi.
Með vottun Túns er staðfest að lífrænir ostar sem vinnslustöðin framleiðir byggi á vottuðum lífrænum hráefnum, sem haldið er aðgreindum frá öðrum hráefnum á öllum stigum allt frá móttöku hrámjólkur til pökkunar á ostunum; að aðferðir við meðhöndlun og geymslu lífrænnar mjólkur samræmist reglum um lífræna framleiðslu; að við ostagerðina séu eingöngu notuð leyfileg íblöndunar- og hjálparefni; og að gæðastjórnun, skráningar og merkingar fyrirtækisins uppfylli settar kröfur.
Mjólkurbúið Kú ehf.
Mjólkurbúið Kú ehf. var stofnað árið 2009 og hóf framleiðslu ári síðar. Fyrirtækið sérhæfir sig í ostaframleiðslu og framleiðir nú átta tegundir af mygluostum. Nýjasta tegundin er lífrænn mygluostur, sem nefndur er „Glaðningur“ og hefst markaðssetning á honum nú þegar.
Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri og einn af stofnendum fyrirtækisins telur mikilvægt að matvælafyrirtæki svari sívaxandi eftirspurn eftir afurðum sem framleiddar eru með lífrænum aðferðum án skaðlegra efna og erfðabreyttra lífvera. “Ég tel einnig að fyrirtæki þurfi í auknum mæli að stuðla að ábyrgri umgengni við umhverfið og lífræn framleiðsla er ein áhrifaríkasta leiðin til þess”, segir Ólafur.
Lífræn framleiðsla á Íslandi
Mjólkurbúið Kú ehf. er fjórða mjólkurvinnslustöðin sem hlýtur vottun til lífrænnar framleiðslu hér á landi og sú fyrsta sérhæfða ostastöðin sem framleiðir lífræna osta. Meginhráefni til þeirrar vinnslu er lífræn mjólk sem nú er framleidd á fjórum bæjum, þar af einum í Eyjafirði og þremur á Suðurlandi.
Vottaðar lífrænar afurðir og náttúruafurðir hafa þá sérstöðu á markaði að allur ferill þeirra, frá ræktun eða söfnun hráefna, til pökkunar í neytendaumbúðir eða afhendingar í lausu, er undir eftirliti óháðs aðila, þ.e. vottunarstofu sem fylgist með því að uppruni og meðferð afurðanna sé í samræmi við alþjóðlegar og íslenskar kröfur um lífræna framleiðslu.
Vottunarstofan Tún hóf vottun lífrænna afurða á Íslandi árið 1996 og í Færeyjum árið 2006. Á þessu tímabili hafa yfir 100 fyrirtæki og bændur hlotið vottun til lífrænnar framleiðslu hér á landi. Auk þess vottar Tún nú framleiðslu fyrirtækja á náttúruvörum og aðföngum til lífrænnar framleiðslu.
Sjá yfirlit yfir þá aðila sem hafa vottun frá Túni hér á Grænum síðum: Aðilar með lífræna vottun frá Túni. Vottað lífrænt, eftir vörutegundum. Aðilar með vottun frá Túni fyrir náttúruafurðir og vottuð náttúruafurð eftir tegundum.
Ljósmynd: Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri Mjólkurbúsins Kú ehf. tekur við vottorði úr hendi Rannveigar Guðleifsdóttur verkefnastjóra Vottunarstofunnar Túns. Örn Smári Gíslason tók myndina.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Á. Gunnarsson, Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Mjólkurbúið Kú ehf fær vottun til lífrænnar ostaframleiðslu“, Náttúran.is: 30. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/30/mjolkurbuid-ku-ehf-faer-vottun-til-lifraennar-osta/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 4. september 2012