Í viðtali við Guðjón L. Sigurðsson form. Ljóstæknifélags Íslands á Bylgjunni í gær kom fram að lýsing af sparperum (compact ljósaperum) sé mjög ólík glóperum og það sé ekki auðvelt fyrir neytendur að finna réttu sparperurnar í lampana sína þegar að bann á glóperum tekur gilid þ. 1. september nk. Guðjón segir að sparperurnar séu lengi að tendrast og ná réttu ljósmagni en hann hefur keypt margar tegundir sparpera að undanförnu til að prófa gæði og endingu og segir þær oft ekki endast lengur en glóperur, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.

Bannið hefur verið í undirbúningi í nokkur ár og er byggt á Evróputilskipun (Ecodirective 32/2005) til að stuðla að rafmagnssparnaði en um 19% af raforkunotkun heimsins fer í lýsingu. Sparperur eru óumhverfisvænni þegar kemur að förgun segir Guðjón og það þurfi að flokka þær sérstaklega og koma til endurvinnslustöðva*. Sparperur eru í raun millistig á milli glópera og ledpera (díóða) sem eru í hraðri þróun og munu á endandum koma í stað sparpera.

Hlusta á viðtalið við Guðjón hér.

*Athugasemd frá Náttúrunni:

Reyndar er sannleikurinn sá að allar perur (flúorperur, halogenperur og glóperur jafnt sem sparperur) innihalda kvikasilfur í einhverju magni og því þarf að flokka þær sérsaklega sem „ljósaperur“, þó að ekki hafi verið lögð mikil áhersla á að fræða fólk um það. IKEA á Íslandi fór þó fram með góðu fordæmi og hefur frá hausti 2009 undirbúið fólk fyrir bannið en frá 1. september 2010 hafa engar glóperur verið til sölu í IKEA. Hægt er að koma perum til réttrar förgunar í IKEA sem er í takt við framleiðenda-og innflytjendaábyrgð sem innleidd var hér landi fyrir nokkrum árum en það þýðir að þeir séu gerðir ábyrgir fyrir söfnun og endurvinnslu á raf- og raftækjaúrgangi sem koma þeim í umferð. Því má búast við að allir sem selji perur á Íslandi i dag ættu einnig að taka á móti þeim til réttrar förgunar í verslunum sínum sem ætti að gera það auðveldara fyrir neytendur að koma notuðum perum í réttan og umhverfisvænan farveg.
Má nú finna sérstök ílát fyrir ljósgjafa þ.e.a.s allar ljósaperur í gámum merktum raftæki á öllum endurvinnslustöðvum SORPU og á endurvinnslustöðvum um allt land. Sjá næstu móttökustöð við þig á Endurvinnslukortinu.

Ljósmynd: Sparperur frá IKEA.

Birt:
23. ágúst 2012
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Glóperubann tekur gildi þann 1. september 2012“, Náttúran.is: 23. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/23/gloperubann-tekur-gildi-thann-1-september-2012/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: