Nýja kremið frá NIVEA hefur verið auglýst mikið í fjölmiðlum að undanförnu. I auglýsingunni er það fullyrt að kremið stinni húðina og auki teygjanleika  „á tveimur vikum“. Ennfremur er sagt er að kremið sé 95% náttúrulegt sem vekur spurningar um hvað hin 5% af ónáttúrulegum efnum séu. Skilgreiningin á „náttúruleg“ getur svosem þýtt næstum hvað sem er enda ekki viðmið sem slíkt. Bensín, arsin og kjarnorka eru líka náttúrleg fyrirbæri en líka rósir og kartöflur. Einnig segir í auglýsingunni að varan innihaldi „lífræna Arganolíu“. En hve mikið af lífrænni Arganolíu er í kreminu og er forsvaranlegt að nefna lífrænt innihald þegar það er aðeins örlítill hluti af vörunni?

Náttúran.is ákvað að skoða þetta nánar og skoða innihaldslýsinguna. Skyldi auglýsing þessa krems vera dæmi um grænþvott (greenwashing)?

Fyrst er rétt að taka fram að í þessu tiltekna kremi eru engin paraben efni og er það að sjálfsögðu meðmæli með kreminu en hvað með allt hitt?

Meðal linnihaldsefna í „náttúlegu“ línunni frá NIVEA er vatn. En síðan kemur glýserín. Ekki er ljóst hvort um er að ræða glýserín sem er unnið úr dýra eða jurtaríkinu en þeir sem eru á móti því að breyta dýrum í sápu mundu gjarnan vilja fá meiri upplýsingar um það málefni.
Önnur innihaldsefni í „náttúrulegu“ línu NIVEA eru m.a.:

  • Oktyldodekanól. Umhverfis og neytendasamtök í Bandaríkjunum telja efnið vera ertandi en um það eru til sterkar vísbendingar.
  • Ísóprópýl stearat SE. Þetta er staðfest ertandi efni fyrir menn.
  • Glýserýl Glúkósíð. Öryggi þessa efnis hefur ekki verið metið fyrir notkun í snyrtivörum. Það er því óvíst hvaða áhrif það hefur.
  • Tvísterkju fosfat. Öryggi þessa efnis hefur ekki verið metið fyrir notkun í snyrtivörum.
  • Metýlísóþíasólínón. Rotvarnarefni. Rannsóknir benda til þess að það kunni að vera eitrað fyrir taugakerfið, einkum fyrir börn og ungt fólk. Efnið er tekið upp í gegnum húð.
  • Fenoxýetanól. Rotvarnarefni. Notkun þess í snyrtivörum er takmörkuð í Japan.  Matvæla- og Lyfjastofnun Bandaríkjanna segir að:  efnið sé rotvarnarefni sem er aðallega notað í snyrtivörum og lyfjum. Efnið getur valdið bælingu á miðtaugakerfi. Efnið geti valdið uppköstum og niðurgangi.
  • Linalool. Þetta efni er nánast bannað í ESB og sætir ströngum takmörkunum. Það kemur fyrir í náttúrunni en er ertandi ef það oxast.
  • Límonen. Þetta efni er nánast bannað í ESB og sætir ströngum takmörkunum. Það kemur fyrir í náttúrunni en er ertandi ef það oxast.
  • Sítronellol. Þetta efni er nánast bannað í ESB og sætir ströngum takmörkunum.
  • Bensýl alkóhól. Um er að ræða kemískt rotvarnarefni. Þetta er þekkt taugaeitur  og gilda reglur um takmarkaða notkun þess í snyrtivörum.
  • Bútýlfenýl Metýlprópíónal. Þetta efni tengist ofnæmi og exemi sem myndast vegna snertingar.
  • Alfa-ísómetýl-jónón. Þetta efni er bannað ef Alþjóðlegu Ilmefnasamtökunum (International Fragrance Association) til notkunar í ilmvötnum.
  • Geraniól. Þetta efni er nánast bannað í ESB og sætir ströngum takmörkunum. Þetta er þekktur ofnæmisvaldur. Það kemur fyrir í náttúrunni en er hættulegt þegar það oxast.
  • Ilmefni. Heitið segir okkur ekki neitt. Það geta verið allt að 3000 mismunandi innihaldsefni sum unnin úr jarðolíu á bak við þetta litla heiti.

Þannig að „náttúrulega“ línan frá Nivea virðist ekki vera svo heilsusamlegt eftir alltsaman. Sérstaklega vekur athygli að í línunni eru 4 innihaldsefni sem eru á bann- og takmörkunarlista innan ESB? Það er a.m.k. full ástæða til að vara við notkun kremsins hjá fólki sem er með snertiofnæmi eða viðkvæma húð.

Það versta er að þetta er ekkert einsdæmi. Stórfyrirtæki veraldarinnar eru farin að ganga á lagið og auglýsa allt sem vistvænt, grænt og umhverfisvænt, án þess að nokkur fótur sé fyrir slíkum fullyrðingum.

Við sem neytendur verðum að vera á varðbergi og veita markaðinum aðhald.

Heimildir:
U.S. Food and Drug Administration
Environmental Working Group
Bubble and Bee Organic
Nivea.co.uk, Nivea.co.uk
Greenbabyinmotion

Birt:
4. apríl 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Hvað leynist á bak við glansmyndina?“, Náttúran.is: 4. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2012/08/24/hvad-leynist-bak-vid-glansmyndina/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 24. ágúst 2012
breytt: 3. júlí 2014

Skilaboð: