7 umhverfisvænustu farsímar í heiminum í dag
Það finnst sjálfsagt mörgum það hálfkjánalegt að tala um „umhverfisvæna“ farsíma þegar að „minna umhverfisspillandi“ væri meira við hæfi. En hvað sem því líður þá var fjallað um „7 of the Most Eco-Friendly Cell Phones on the Market“ í grein á Treehugger í gær. Innihald greinarinnar er á þessa leið:
Farsímar eru nú í höndum meira en helmings jarðabúa og í dag þjóna þeir svo miklu víðtækara hlutverki en símar gerðu hér áður fyrr. Þeir eru mögnuð tæki fyrir umhverfissinna, þeir geta fært okkur nær villtri náttúru og sinna ótal mörgum hlutverkum sem við erum orðin háð.
En já, farsímar eru líka raftæki sem krefjast hráefnaöflunar sem hefur aftur í för með sér bruna jarðefnaeldsneytis auk þess sem við framleiðsla þeirra safnast upp gríðarlegt magn eiturefna. Svo það er mikilvægt að við gleymum ekki plánetunni okkar þegar að við veljum okkur nýjan farsíma.
Áætlað er að um 2017 verði um 400 milljónir „grænna“ farsíma til, en þá er átt við farsíma sem gerðir eru úr a.m.k. 50% endurunnu efni. Sprint tilkynnti á þessu ári að fyrirtækið muni setja þau skilyrði við framleiðslu sína að allir símar uppfylli kröfu UL Environment, sem mælir umhverfisnæmi, orkunotkun, framleiðslu og stjórnun, áhrif á heilsu og umhverfi, virkni, umbúðir og viðskiptaumhverfið í kringum vöruna.
En þrátt fyrir alla þessa framför er markaðurinn ekki fullur af „grænum“ farsímum, svo ef þú ert að hugsa að fá þér nýjan síma þá skoðaðu þá listann hér að neðan yfir „umhverfisvænustu“ lausnirnar.
1. Notaðir farsímar
Raftækjarusl er gríðarlegt vandamál. Talið er að um 140 milljón farsímanotendur í Bandaríkjunum einum saman skipti út símum á 14-18 mánaða fresti. Það þýðir að fjöll lítið notaðra farsíma hlaðist upp út um allan heim, stöðugt. „Grænasti“ farsíminn sem þú getur keypt er því notaður farsími. Víða er hægt að nálgast notaða farsíma, t.d á Ebay og t.d. hjá Símabæ í Mjóddinni hér á landi.
2. iPhone
iPhone eins og aðrir snjallsímar ná sæti á þessum lista vegna hinna ótrúllega fjölþættu nota sem hann býður upp á. iPhone er ekki bara farsími heldur einnig; iPod, stafræn myndavél, dagatal, dagbók, netpósturinn þinn, vafri, GPS tæki, reiknivél og svo margt fleira. Reyndar er það svo að því fleiri not sem þú finnur fyrir snjallsímann þinn, þeim mun umhverfisvænna lífi getur þú státað af að lifa. Þú þarft að kaupa færri tæki og í hvert skipti sem að app hjálpar þér að finna eitthvað eða finna út úr einhverju sparar það þér ferðir og tíma sem aftur sparar orku og minnkar koltvísýringslosun, mesta vandamál mannskyns í dag.
3. Samsung Galaxy Exhilirate
Samsung hefur verið einskonar konungur grænna farsíma og kynnir ný módel árlega. Galaxy Exhilirate er Android snjallsími sem framleiddur er úr 80% endurunnu efni og honum fylgir kraftmikið hleðslutæki. Síminn fær græna punkta fyrir að vera framleidur úr endurunni efni, að mestu leiti, og vegna þess að hann, eins og iPhone, sinnir svo mörgum hlutverkum sem gerir önnur tæki ónauðsynleg.
4. Samsung Replenish
Líkt og Galaxy Exhilirate er Samsung Replenish Android snjallsími sem seldur er í gegnum Sprint sem fékk Platinum Certification frá UL Environment.
5. Samsung Evergreen
Evergreen farsíminn er gerður úr 70% endurunnu plasti og umbúðir úr 80% endurunnum pappír. Evergreen fékk Platinum Certification frá UL Environment og hefur einnig Energy Star vottað hleðslutæki sem segir þér hvenær síminn er fullhlaðinn.
6. Micromax's X259
Micromax síminn er knúinn með sólarrafhlöðu og verðið er ekki út úr korti.
7. Síminn sem þú átt núna
Vantar þig virkilega nýjan síma? Þrátt fyrir alla þessa flottu farsíma á markaðinum ætti maður að spyrja sig hvort að maður komst ekki af með gamla símann.
Hvað á að gera við gamla símann.
Hægt er að skila ónýtum símtækjum og hleðslutækjum til endurvinnslustöðva. Símum og farsímum er einnig hægt að koma til verslana Símans og nokkurra fyrirtækja* sem taka símana í sundur og koma innvolsi og hulstrum til réttrar förgunar eða gera við símana, gefa til góðgerðarstarfsemi eða selja áfram á lágu verði.
*Símabær og Græn framtið ehf. (Upplýsingar af Endurvinnslukorts-appi Náttúrunnar sem kynnt verður fljótlega)
Ljósmynd: E-efna app Náttúrunnar skoðað á iPhone, Einar Bergmundur.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Megan Treacy „7 umhverfisvænustu farsímar í heiminum í dag“, Náttúran.is: 22. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/22/7-umhverfisvaenustu-farsimar-i-heiminum-i-dag/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.