Bláberjalyng (Vaccinium uliginosum)

Nú er háuppskerutími hinna bláu berja bláberjarunnans (Vaccinium uliginosum) þessum yndislegu vítamín-, (séstaklega C- og E-vítamín) trefja- og andoxunargjöfum sem fást ókeypis úti í móa út um allt land.

Margt er hægt að gera til að geyma þau til vetrarins. Klassíska bláberjasultan stendur alltaf fyrir sínu en einnig er hægt að gera hráberjasultu, sem geymist þó ekki lengi. Fersk bláber með rjóma eru engu lík og því um að gera að borða eins mikið af berjunum ferskum og í maga komast. Afganginn má svo sulta eða frysta beint, annað hvort örlítið sykruð eða bara setja þau beint í ílát eða plastpoka í frystinn. Svo má baka úr þeim og gera ís, núna eða seinna.

Með því að gera ís er maður ekki að hita berin og því halda þau öllum góðu vítamínunum og andoxunarefnunum óskemmdum. Hér er uppskrift að bláberjaís sem er mjög auðvelt að gera.

Hrá-bláberjaís

  • 3 egg
  • sykur (hvítur eða hrár) í jöfnu hlutfalli og eggin (gott að mæla í mæliglasi)
  • bláber, eins og vill
  • 1 peli rjómi

Og svona er farið að:

  1. Eggin og sykurinn eru þeytt saman í hrærivél. Hnefa af bláberjum (eða meira ef vill) er sett út í blönduna að lokum og hrært svolítið í, en ekki of mikið.
  2. Blandan er sett í aðra skál og hrærivélaskálinn þvegin.
  3. Þeyta 1 pela af rjóma, þó ekki stífþeyta alveg.
  4. Blanda síðan eggja-, sykur- og bláberjablöndunni út í rjómann og hræra varlega saman með sleif eða pískara.
  5. Nokkrum heilum bláberjum bætt út í í lokin.
  6. Hellið í silikonform og sett í frysti.

Ísinn er svo tilbúinn eftir ca. 5-6 klukkustundir í frystinum. Gott er að setja plastfólíu yfir formið með ísnum í áður en sett er í frysti. Verði ykkur að góðu!

Ljósmynd: Bláber í Grímsnesi, ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
23. ágúst 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hrá-bláberjaís“, Náttúran.is: 23. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2012/08/18/hra-blaberjais/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 18. ágúst 2012
breytt: 22. ágúst 2014

Skilaboð: