Nýuppteknar hvannarætur.Ætihvönn [Angelica archangelica] hefur sterkar rætur sem búa yfir miklum krafti. Rótin af jurtinni á fyrsta ári er talin best* til notkunar en með haustinu ætti að vera góður tími til að grafa ræturnar upp. Auðveldast er að grafa upp hvannarrætur þar sem jarðvegur er sendinn. Til að geyma rótina er gott að skola hana vel og skræla og skera síðan í sneiðar, en þær þorna fyrr en rótin í heilu lagi. Þurrkist á vel hlýjum stað sem loftar (en ekki við sólarljós).

Vísindalegar rannsóknir hafa leitt í ljós að sú virkni sem kennd hefur verið við hvönnina í þúsundir ára, er sannanleg. Prófessor Sigmundur Guðjarnason, Raunvísindastofnun HÍ, hefur rannsaknað virkni um 40 „íslenskra lækningajurta“ og komist að því að „kerlingasögurnar“ eigi við rök að styðjast, í mismiklum mæli þó. Ætihvönnin er einkar virk. Rannsóknirnar hafa aðallega beinst að leit að virkum efnum sem virka á bakteríur, veirur og krabbameinsfrumur og efni sem hafa áhrif á ónæmiskerfið. Niðurstöður rannsóknanna sýna að lækningajurtir á Íslandi hafa líffræðilega virk efni sem hafa áhrif á ónæmiskerfið og geta einnig heft vöxt á krabbameinsfrumum, bakteríum og veirum. Náttúruefni úr ætihvönn og vallhumli sýna mikla virkni gegn krabbameinsfrumum úr mönnum (brjósta-, ristil- og briskrabbameinsfrumum o.fl.). Ýmsar náttúruafurðir hafa verið þróaðar af fyrirtækinu SagaMedica í samvinnu við prófessor Sigmund á síðustu árum t.a.m. Angelica hvannartöflur, Angelica hvannarveig, Saga Pro (við tíðum næturþvaglátum) og Voxis (hálstöflur).

*Samkvæmt Arnbjörgu Lindu Jóhannsdóttur grasalækni í bókinni Íslenskar lækningajurtir, söfnun þeirra, notkun og áhrif.

Myndin er af nýuppteknum ætihvannarrótum niður við Hvítá í Grímsnesi þ. 22.09.2004. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
4. september 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hvannarrót þurrkuð til margs lags brúks“, Náttúran.is: 4. september 2014 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/hvannarot/ [Skoðað:18. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 4. september 2014

Skilaboð: