Heimskautsísinn bráðnar 50% hraðar
Nýjar mælingar sýna að ísinn á Norðurheimskautinu bráðnar hraðar en spáð hefur verið. Aldrei hefur verið minni ís á svæðinu frá því að mælingar hófust fyrir 33 árum.
Mælingar bandarískra vísindamanna frá fyrsta ágúst sýna að lagnaðarísinn á norðuhemskautinu þakti 6,53 milljónir ferkílómetra sem er nokkuð minna en fyrsta ágúst 2007 sem var fyrra metár í ísleysi. Notaður var sérútbúinn gervihnöttur til að mæla ísþykktina.
Ísinn norður af Grænlandi er nú aðeins þriggja metra þykkur en var 5 til 6 metrar fyrir áratug. Ísinn bráðnar allt að 50 % hraðar en allar spár hafa gert ráð fyrir og allt að 900 rúmkílómetrar íss hafa bráðnað árlega frá árinu 2004. Ástæðan fyrir mikilli bráðnun nú er óvenju heitt sumar þar sem hæðirnar hafa komið í röð hver á fætur annarri. Danskur leiðangur er nú á norðurslóð til þess að afla gagna sem sanna rétt ríkjasambands Grænlands og Danmerkur á lögsögu á landgrunninu norðan Grænlands allt að norðurpólnum.
Kínverjar hafa sent stærsta ísbrjót sinn til Íslands, sem liggur nú við akkeri á Kollafirði. En smíði þess skips er liður í áætlun kínverskra valdhafa sem líta hýru auga auðlindir og siglingaleiðir í norðurhöfum vegna þeirra breytinga sem verða við það að ísinn hverfur.
Ljósmynd; Grænlandsjökull, Norden.org.
Birt:
Tilvitnun:
Rúv „Heimskautsísinn bráðnar 50% hraðar“, Náttúran.is: 15. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/15/heimskautsisinn-bradnar-50-hradar/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.