Frumhlaup eða misskilningur - Íslenskar vörur merktar Skráargatinu nú þegar
Skráargatið, merki sem á að gefa til kynna að tiltekin vara sé „hollari“ en sambærilegar vörur á markaði hefur verið notað á nokkrar íslenskar vörur, aðallega mjólkur- og brauðvörur, jafnvel þó að Matvælastofnun hafi ekki enn fengið leyfi til notkunar merkisins frá Livsmedelsverket í Svíþjóð, sem er rétthafi merkisins. Ekki hefur heldur verið ákveðið hver fer með eftirlit og úttektir fyrir þá sem óska eftir að fá að nota merkið á vörur sínar hér á landi. Merkið er því markleysa enn sem komið er.
Drög að reglugerð liggur fyrir hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu en endanleg útgáfa reglugerðar hefur ekki enn verið birt um Skráargatið. Það er því greinilega um frumhlaup að ræða þeim aðilum sem nú þegar nota merkið en slíkt getur ekki gert annað en skaða trúverðugleika merkisins í augum almennings.
Náttúran hefur óskað eftir skýringum hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og mun birta þær um leið og þær berast.
Sjá frétt um Skráargatið frá 17. 02.2011.
Byggi íslenskt morgunkorn er merkt skráargatinu, án nokkurra fyrirvara.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Frumhlaup eða misskilningur - Íslenskar vörur merktar Skráargatinu nú þegar“, Náttúran.is: 14. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/14/frumhlaup-eda-misskilningur-islenskar-vorur-merkta/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 15. ágúst 2012