Fræðsluferð Landverndar um Vonarskarð og víðerni Vatnajökulsþjóðgarðs
Landvernd og Ferðafélag Íslands standa fyrir fræðsluferð um Vonarskarð og víðerni í Vatnajökulsþjóðgarði dagana 10.-12. ágúst (til vara: 17.-19. ágúst): föstudagur til sunnudags.
Skoðuð verða jarðhitasvæði og eldstöðvar í Vonarskarði við miðju landsins, út frá sérstöðu og náttúruverndargildi.
- Föstudagur: Brottför frá Mörkinni 6 kl. 16. Ekið frá Reykjavík í náttstað í Nýjadal.
- Laugardagur: Ekið að morgni dags inn á Gæsavatnaleið að Gjóstuklifi. Þaðan er gengið yfir sanda Rauðár að jarðhitasvæðinu við Laugakúlu. Farið í bað í Varmá sem rennur úr kolsýruhverum sunnan undir Kúlunni. Stærsta eldstöð landsins, Bárðarbunga, rís tilkomumikil yfir víðerninu í Vonarskarði. Litfögur líparítfjöll, Eggja og Skrauti, móbergsfjöll og grásvartir sandar einkenna landslagið. Frá hverasvæðinu er gengið meðfram Eggju og um Mjóháls tilbaka í Nýjadal. Drjúg dagleið (8-12 tímar). Mikilvægt að fólk sé vel búið og nestað.
- Sunnudagur: Lagt verður af stað heim eftir góða hvíld. Á leiðinni til Reykjavíkur verða Kvíslaveitur skoðaðar og ef til vill litið inn í Veiðivötn. Heimkoma áætluð um kl. 19.
Leiðsögumaður verður Kristján Jónasson, jarðfræðingur.
Skráning í ferðirnar er hjá FÍ í síma 568 2533 eða með því að senda tölvupóst á fi@fi.is.
Birt:
12. júlí 2012
Tilvitnun:
Landvernd „Fræðsluferð Landverndar um Vonarskarð og víðerni Vatnajökulsþjóðgarðs“, Náttúran.is: 12. júlí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/07/11/fraedsluferd-landverndar-um-vonarskard-og-viderni-/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. júlí 2012
breytt: 13. ágúst 2012