Reyniber
Reyniber eru að verða að stórkostlegu haustskrauti þegar risastór trén glóa af rauðum glansandi berjaklösunum áður en stormurinn slítur þá af og þau liggja á gangstéttunum eins og rauður snjór. Frænka mín varðveitti berin í grófu salti til að geyma í skreytingar en ég veit ekki hvernig hún notaði þau. Helga Sigurðar* vill vinna á beiskjunni í berjunum með því að láta þau frjósa fyrst og liggja síðan í vatni í 3 sólarhringa og skipta um vatn daglega (sjá uppskrift).
Þetta er forn aðferð til að ná remmu og jafnvel eitri úr plöntum, bæði villtum kartöflum og jafnvel lúpínufræjum, en þá verður vatnið að vera sírennandi. Svo má sjóða reyniberin í súpu með þeyttum rjóma eða gera úr þeim mauk en þá vill Helga* hafa epli með til að bæta bragðið. Til eru uppskriftir sem nota berin í þykkni með eplum sem fyllingu.
*Átt er við bók Helgu Sigurðardóttur „Grænmeti og ber allt árið“.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.
Ljósmynd: Reyniviður með þroskaða berjaklasa. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Reyniber“, Náttúran.is: 14. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2007/08/16/reyniber/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. ágúst 2007
breytt: 14. ágúst 2014