Næstkomandi sunnudag þ. 29. júlí kl. 14:00 mun Lystigarður Akureyrar fagna hundrað ára afmæli sínu með afmælishátíð. Stemningin verður mjög fjölskylduvæn. Boðið er í lautartúr í Lystigarðinum í anda liðinna tíma. Harmonikkan mun hljóma fyrsta hálftímann áður en hátiðin verður sett. Hljómsveit Ingu Eydal leikur síðan við hvurn sinn fingur og flytur hin ljúfustu lög fyrir gesti og gangandi. Uppákomur verða í hléinu og síðan heldur hljómsveitiin áfram fram eftir degi.

Hér að neðan má fræðast um hvernig Lysti- og grasagarðurinn varð til og hvernig hann hefur þróast til dagsins í dag.

Lystigarðsfélagið
Nokkrar húsmæður sóttu árið 1909 um land undir skrúðgarð og fengu síðan úthlutað um 1 ha landspildu úr landi Stóra-Eyrarlands. Lystigarðsfélagið var síðan stofnað árið 1910. “Tilgangur félagsins er að koma upp garði í Akureyrarbæ, bænum til prýði og almenningi til skemmtunar. Garðurinn sé skreyttur trjám og blómum og leikvellir og lystihús séu þar almenningi til afnota svo fljótt sem því verður við komið” en svo hljóðaði 2. grein í lögum félagsins. Garðurinn var síðan opnaður formlega 1912. Anna Catrine Schiöth skipulagði og teiknaði þennan elsta hluta garðsins og vann hún síðan með hjálp annarra kvenna að vexti og viðgangi garðsins fyrstu árin. Tengdadóttir hennar frú Margrethe Schiöth tók síðar við stjórninni og fór með hana meira og minna síðustu 30 árin sem félagið starfaði.

Lystigarðurinn er fyrsti almenningsgarður landsins og var rekinn af Lystigarðsfélaginu allt til ársins 1953. Þá var félagið lagt niður og Akureyrarbær tók þá formlega við rekstrinum og hefur rekið hann síðan.

Grasagarðurinn
Grasagarðurinn var stofnaður 1957. Fegrunarfélag Akureyrar hafði þá forgöngu um að plöntusafn Jóns Rögnvaldssonar í Fífilgerði var keypt til bæjarins og komið fyrir í Lystigarðinum, en Jón hafði verið ráðinn forstöðumaður garðsins árið 1954 og gegndi því embætti til 1970. Grasagarðurinn er því elsti grasagarður landsins og einn nyrsti grasagarður í heimi. Flestar tegundir sem ræktaðar eru í garðinum eiga sinn náttúrulega uppruna á heimskautasvæðum, norðlægum slóðum eða úr háfjöllum víða um heim.

Í vesturhluta garðsins er beð með fjallaplöntum úr mismunandi heimsálfum. Einnig eru sérstök beð fyrir íslensku flóruna og heimskautaflóruna í suðaustur hluta garðsins. Meginþorri íslensku flórunnar eða um 430 tegundir eru árlega til sýnis í íslensku beðunum. Þar er einnig arktíska flóran með fjölmörgum hánorrænum tegundum.

Alls eru í ræktun í garðinum rétt um 7000 tegundir, tegundaafbrigði, undirtegundir og yrki.

Helstu markmið með rekstrinum eru fjölmörg. Eitt mikilvægasta hlutverkið er að finna með prófunum, fallegar og harðgerar tegundir fjölæringa, trjáa og runna. Garðurinn er þannig eins konar genabanki fyrir þær tegundir sem þrífast á norðlægum slóðum. Þar að auki er hann notaður til afþreyingar og nýtist almenningi til fróðleiks og skemmtunar.

Café Björk
Í byrjun júní á þessu ári varð langþráður draumur að veruleika en þá opnaði fyrsta kaffihúsið í Lystigarðinum, Café Björg. Í húsinu er einnig minjagripasala. Það eru þeir Njáll Trausti Friðbertsson og Sigurður Guðmundsson sem reka staðinn sem tekur um 65 manns í sæti og býður aðallega upp á bakkelsi og smurbrauð að danskri fyrirmynd.

Sjá Lystigarð Akureyrar hér á Grænum síðum.

Ljósmynd: Nýja kaffihúsið Cafe Björg í Lystigarðinum á Akureyri.

Birt:
25. júlí 2012
Tilvitnun:
Björgvin Steindórsson, Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Lystigarður Akureyrar fagnar 100 ára afmæli“, Náttúran.is: 25. júlí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/07/25/lystigardur-akureyrar-fagnar-100-ara-afmaeli/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 26. júlí 2012

Skilaboð: