Grænlandsjökull bráðnaði óvenjumikið á fjögurra daga tímabili um miðjan júlí. Vísindamenn hjá Geimferðastofnun Bandaríkjanna trúðu ekki sínum eigin augum fyrst þegar þeir sáu myndir af bráðnuninni.

Þrír gervihnettir Geimferðastofnunar Bandaríkjanna, NASA, mældu bráðnunina, sem á sér enga hliðstæðu. Mælingar frá 8. júlí sýndu að um 40% íshellunnar við eða á yfirborði jökulsins var að þiðna. Fjórum dögum seinna náði bráðnunin yfir umtalsvert stærra svæði - um 97% af yfirborði jökulsins var að bráðna.

Vísindamenn NASA segjast fyrst hafa haldið að um mistök væri að ræða, eða að einhver búnaður væri bilaður. Við nánari athugun kom í ljós að svo var ekki. Mesta bráðnun sem gervihnettir hafa numið á síðustu 30 árum var um 55%.

Á meðal sumri bráðnar um helmingur yfirborðs Grænlandsjökuls. Í mikilli hæð frýs mest allt vatnið yfirleitt fljótlega aftur. Við ströndina helst hluti vatnsins á jöklinum, en hluti þess lekur út í sjó. Óvenjuhlýtt loft var yfir Grænlandi um miðjan mánuðinn.

Vísindamenn NASA vita ekki hvort bráðnunin mikla í júlí hafi áhrif á það hve mikið jökullinn minnkar í ár, eða hver áhrifin verða á hækkun yfirborðs sjávar. Ekki er heldur hægt að skera úr um hvort þessa miklu bráðnun megi rekja til hnattrænnar hlýnunar eða ekki.

Myndin til vinstri sýnir bráðnun yfirborðs jökulsins 8. júlí. Myndin til hægri sýnir bráðnunina 12. júlí. Mynd: NASA.

Birt:
25. júlí 2012
Höfundur:
Rúv
Tilvitnun:
Rúv „Bráðnun án hliðstæðu“, Náttúran.is: 25. júlí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/07/25/bradnun-hlidstaedu/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: