Ýmsar blikur eru á lofti varðandi það að olíukreppa heimsins sé ekki langt undan. Bandaríkin fóru yfir topp hámarksframleiðslu á olíu (Hubbert´s peak) um 1970 og Norðursjórinn fór yfir topp hámarksframleiðslu á olíu árið 1999. Í kjölfarið á þessum staðreyndum hefur verð á olíu heldur farið hækkandi. Nú er jafnvel talið að heimsframleiðsla olíu muni fara yfir topp hámarksframleiðslu (Hubbert´s peak) á þessum eða næsta áratug 21. aldar, og síðan mun olíuframleiðsla heimsins dragast hratt saman.

Nokkurs titrings gætir vegna þessa meðan stjórnmálamanna heimsins bæði í Evrópu, Lundúnum og Washington. Bandaríkjamenn og Bretar hafa frá upphafi innrásarinnar í Írak og aðdraganda hennar unnið saman í orkumálum og í málum er varða orkuöryggi. Það má jafnvel ganga svo langt að segja að ekki sé hægt að skilja utanríkisstefnu Bandaríkjanna og Breta síðan 1970 án þess að skilja þann ótta við að olían sé bráðum að verða á þrotum, sem ásækir menn bæði í Washington og London.

En af hverju er þá ekki rætt meira um vaxandi olíukreppu heimsins? Jú einfaldlega vegna þess að enginn stjórnmálamaður vill hrópa: - úlfur, úlfur!, nema úlfurinn sé sannanlega við dyrnar, auk þess sem stjórnmálamenn heimsins óttast að það grípi um sig almenn skelfing ef of mikið af upplýsingum um raunverulega stöðu mála myndu leka út.

Það er a.m.k. ljóst að olíubirgðir heimsins sem urðu að mestu leyti til fyrir um 500 milljónum ára eru takmörkuð og endanleg auðlind sem ekki mun endast að eilífu. Hvort slík staðreynd réttlætir t.d. að náttúru Íslands sé fórnað til að framleiða orku með vatnsafli eða jarðhita, til útflutnings gegnum sæstreng, geta menn síðan rifist um út í hið óendanlega.

Náttúra Íslands er einnig verðmæti sem ekki er hægt að endurnýja, né meta til fjár. Náttúra Íslands tilheyrir ekki bara Íslendingum heldur allri veröldinni, og því verður að spyrja sig: Hversu miklu ætlum við að fórna til að geta sóað gengdarlaust orku, og hve miklu ætlum við að fórna til að geta selt útlendingum aðgang að landi okkar, orku þess og auðlindum. Við verðum því að gera okkur grein fyrir því að náttúra Íslands er eins og olían. Sé hún horfin af sjónarsviðinu, kemur hún aldrei aftur til baka.

Grafík: Hubbert's Peak, af Wikipedíu.

Sjá nánar um Hubbert's Peak á Wikipedíu.

Birt:
10. júlí 2012
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Er olíukreppa heimsins að nálgast?“, Náttúran.is: 10. júlí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/07/10/er-oliukreppa-heimsins-ad-nalgast/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: