Um þessar mundir er Náttúran í allsherjar uppfærslum skráninga, með sérstaka áherslu á vottaða aðila, verðlaunaða og annarra sem af bera á sviði umhverfismála á Íslandi. Í dag unnum við að uppfærslum á EarthCheck vottuðum aðilum á Íslandi, sem í stuttu  máli sagt var ekki uppörvandi vinna.

Fimm aðilar hafa hellst úr lestinni á þeim stutta tíma síðan GreenGlobe var skipt út fyrir EarthCheck en EarthCheck var stofnað af aðilum sem að unnu fyrir Green Globe áður en voru ekki sáttir við hvernig að því merki var staðið og stofnuðu því nýja vottun byggða á reynslu sinni við starfið fyrir Green Globe.

Frumkvöðlar að innleiðingu umhverfisvottunar Green Glebe hér á landi voru þau Guðrún og Guðlaugur heitinn Bergmann í Brekkubæ (nú Hótel Hellnar) á Snæfellsnesi en Guðrún Bergmann hefur æ síðan unnið umhverfismálum á Íslandi heill.

Ég ræddi við einn ferðaþjónustuaðilann í dag, frumkvöðul sem datt úr EarthCheck lestinni en hefur látið að sér kveða á sviði nýsköpunar og umhverfismála á íslandi til fjölda ára. Aðspurð að því af hverju hún hætti með EarthCheck vottun hafði hún eftirfarandi að segja;

Við vorum með vottun í 1-2 ár en þegar að vottunin breytti um eignarhald ef svo má að orði komast þá hækkuðu árgjöldin frá 150 þús. kr. upp í 500 þús. kr. á ári og því höfum við einfaldlega ekki efni á. Úr varð að við ákváðum að hætta. Bankahrunið spilaði þó inn í og nauðsyn á sparnaði en fall gengisins hafði mikið með það að gera hve mikil hækkunin varð. Ég vonast til að Vakinn, nýtt vottunarkerfi Ferðamálastofu komi að einhverju leiti í stað EarthCheck fyrir okkur, en á meðan held ég bara áfram að sinna því góða umhverfisstarfi sem ég er nú hvort eð er orðin sjóuð í“.

EarthCheck vottaðir aðilar eru í dag aðeins fimm en einni og sömu vottuninni deilir þjóðgarðurinn Snæfellsjökull og sveitarfélögin á Snæfellsnesi (Eyja og Miklaholtshreppur, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær.

Sjá EarthChek vottuðu aðilana nánar hér á Grænum síðum.

Birt:
3. júlí 2012
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „EarthCheck vottunum fækkað um helming á Íslandi“, Náttúran.is: 3. júlí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/07/03/earthcheck-vottanir-faekkad-um-helming-islandi/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: