Verkfræði- og náttúruvísindasvið (VoN) Háskóla Íslands hlaut umhverfisverðlaun Grænna daga, Plöntuna, sem afhent voru í fyrsta sinn í dag. Að Grænum dögum stendur GAIA, félag meistaranema í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands.

Í frétt frá GAIA segir; „Plantan er veitt einstaklingi, hóp, sviði eða stofnun innan Háskóla Íslands sem hefur starfað að umhverfismálum. Horft er til frumleika, frumkvæðis og árangurs starfsins þegar verðlaunahafinn er valinn. Þá hlýtur öll frumkvöðlastarfsemi í þessum málaflokki sérstaka athygli.“

I skýringu á vali sínu segir GAIA; „Verkfræði- og náttúruvísindasvið hefur verið leiðandi innan skólans í sorpflokkun og verið drifkrafturinn að baki því að flokkunarbarir eru nú í öllum byggingum HÍ. Innan sviðsins starfar umhverfisnefnd sem mótað hefur sjálfbærnistefnu sviðsins. Nemendafélög standa fyrir keppninni „Hjólað í skólann“ sem hefst eftir rúma viku á milli nemendafélaga í HÍ . Þá vinnur VoN að því að hljóta Grænfánann, fyrst íslenskra háskólasviða.

Auðvitað má segja að verðlaun þessi séu svolítið eins og að verðlauna sjálfan sig en hitt er þó rétt, að Verkfræði- og náttúruvísindasvið undir handleiðslu Kristínar Völu Ragnarsdóttur hefur vissulega lyft grettistaki og hafið virkt umhverfisstarf innan HÍ og er það vel. Svolítið hól er í þessu tilviki engum til verulegs skaða enda deildin langsamlega virkust í að innleiða umhverfisstarf innan HÍ. Það er spurning hvort að Plantan festi sig í sessi sem virt umhverfisverðlaun í framtíðinni eða ætli annað svið HÍ geti skotið Verkfræði- og náttúruvísindasviði ref fyrir rass á sviði umhverfismála í nánustu framtíð?

Ljósmynd: Verðlaunaskjal Plöntunnar, ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
15. mars 2012
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „GAIA verðlaunar Verkfræði- og náttúruvísindasvið fyrir umhverfisvitund“, Náttúran.is: 15. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/15/gaia-verdlaunar-deild-sina-fyrir-umhverfisvitund/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 16. mars 2012

Skilaboð: