Grænkálsgrey„Finndu stystu leiðina milli moldar, handa og munns“, er haft eftir Lanza Del Vasto, ítölskum heimspekingi, ljóðskáldi og friðarsinna sem fæddur var árið 1901 og sem náði að dvelja með Mahatma Gandi og er oft kallaður fyrsti vestræni lærisveinn hans.

Þessi kenning er að ná eyrum fólks á Íslandi. Við erum meðvitaðri nú um að best er að fæðan verði til sem næst heimili okkar en sé ekki þreytt og dópuð eins og tegundir sem eru komnar langt að. Margir bera nú stoltir fram eigin afla, grænmeti ellar góðgæti úr heimabyggð. Þetta fyllirí hinna miklu, en oft spennandi, vöru- og matarflutninga á milli heimsálfa hefur nú staðið í 500 ár og mál að linni.

Auðvitað áttum við að hefjast handa við eldhúsgarðinn í haust, stinga hann upp og skítta svo hann væri búinn að jafna sig og melta áburðinn þegar vorið er mætt á svæðið og ánamaðkarnir komnir á fullt. Þurfa nú ekki annað en að hreinsa burt einstaka harðgresi sem hefur fundið þarna tækifæri til að stinga sér niður í vetur. Arfi og harðgresið eru nú bara að vinna vinnuna sína, sem þeim er eðlislæg, að loka moldinni því þau skynja garðbleðilinn eins og sár á yfirborði jarðar sem þurfi að hylja og búa um sem fyrst.

Að hafa eldhúsgarð þýðir að eiga reit sem næst eldhúsinu og rækta þar að minnsta kosti salat og kryddjurtir fyrir daglegar máltíðir. Þessi garður á helst að vera svo stutt frá útidyrunum að við veigrum okkur ekki við að skjótast út eftir einhverju grænu í rigningu eða hrissingi. En ef það láðist að undbúa sig í haust þá er bara að grípa skófluna núna og hefjast handa. „Vélin gerir okkur að þrælum, en hendin veitir frelsi“, sagði Lanza Del Vasto líka og við skulum gleðjast við vinnunna.

Ljósmynd: Grænkál (Brassica oleracea) á ungaaldri, Hildur Hákonardóttir.

Sjá Eldhúsgarðinn hér til vinstri á síðunni. Ef þú opnar „Eldhúsgarðurinn:Garðurinn“ getur þú bæði séð hve mikið pláss hver planta þarf og þú færð einnig upplýsingar um tíma sáningar- og gróðursetningar og jafnvel áætlaðan uppskerutíma hverrar plöntu fyrir sig.

Birt:
9. mars 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Finndu stystu leiðina...“, Náttúran.is: 9. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2010/04/24/finndu-stystu-leidina/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 24. apríl 2010
breytt: 9. mars 2013

Skilaboð: