Fyrirtækið Monsanto var stofnað í St. Louis Missouri árið 1901 af John Francis Queeny  sem hafði lengi starfað innan lyfjaiðnaðarins. Fyrsta framleiðsluvara fyrirtækisins var gervisætuefnið sakkarín sem fyrirtækið seldi til Coca Cola fyrirtækisins.

Árið 1919 fór Monsanto að framleiða salisílsýru og aspirín og fyrirtækið hóf einnig framleiðslu á brennisteinssýru. Á fimmta áratug 20. Aldar hóf Monsanto framleiðslu á plastefnum eins og pólýstýren og gervitrefjum. Síðan hefur Monsanto þróast smám saman yfir í einn helsta efnaframleiðanda heims. Fyrirtækið hefur framleitt skordýraeitur, DDT og fyrirtækið framleiddi hinn alræmda Agent Orange sem var notaður í Víetnamstríðinu. Fyrirtækið framleiðir einnig efni eins og NutraSweet, BST hormón og PCB efni. Monsanto hefur einnig tekið virkan þátt í því að þróa kjarnorkuvopn Bandaríkjanna.

Monsanto er stærsti framleiðandi plöntueitursins glyfósats sem er selt undir vörumerkinu Roundup.

Vísindamenn á vegum Monsanto urðu fyrstir til að erfðabreyta plöntufrumu árið 1982 og síðan hefur fyrirtækið lagt áherslu á erfðabreytta ræktun og erfðabreyttan landbúnað.

Hafandi í huga þessa sögu fyrirtækisins, kemur kannski ekki á óvart að Monsanto hefur lengi verið gagnrýnt mikið af ýmsum þeim sem berjast gegn notkun eiturefna og erfðabreyttra sáðkorna í landbúnaði. Margir halda því fram að Monsanto ætli sér ekkert minna en að ná yfirráðum yfir og stjórna matvælaframleiðslu heimins, enda hefur Monsanto einkaleyfi á þeim erfðabreyttu sáðkornum sem fyrirtækið framleiðir.

Monsanto er talið bera hugsanlega ábyrgð á 56 menguðustu svæðum Bandaríkjanna (Superfund sites), og hafa íbúar nálægt þessum svæðum farið í mál við fyrirtækið vegna hugsanlegs heilsutjóns.

Í Anniston í Alabama hefur fyrirtækið skilið eftir sig miklu mengun er tengist framleiðslu er fór þar fram á PCB efnum. Kvikasilfur og PCB var losað í læki á svæðinu sem voru hluti af drykkjarvatnskerfi  heimamanna.

Hermenn úr Víetnamstríðinu fóru í mál gegn Monsanto vegna heilsuskaða sem þeir höfðu orðið fyrir vegna notkunar á Agent Orange. Monsanto hefur samt á að skipa mjög góðum lögfræðingum og það er ekki á hvers manns færi að fara í mál við stórfyrirtækið.

Á árunum 1965 til 1972 losaði Monsanto þúsundir tonna af eitruðum úrgangi í sorphauga í Bretlandi og greiddi verktökum fyrir verkið. Fyrirtækið vissi að þessi losun mundi orsaka mengun á nánasta umhverfi.  Málið er nú í höndum breskra umhverfisyfirvalda.

Monsanto hefur mætt harðri andstöðu frá Evrópusambandinu sem vill ekki leyfa fyrirtækinu að markaðssetja sig og erfðabreyttar vörur sínar og meðfylgjandi skordýraeitur í Evrópu.  Almenningur í Evrópu er almennt séð andsnúinn erfðabreyttum landbúnaði og erfðabreyttum matvörum.  Evrópubúar vilja ekki setja landbúnaðarframleiðslu sína alfarið í hendur bandarísks stórfyrirtækis.

Þetta eru aðeins örfá dæmi úr sögu Monsanto fyrirtækisins og heimildir sem hér eru notaðar eru fyrst og fremst frá Wikipediu (leitarorð: Monsanto) og einnig eru heimildir um starfsemi Monsanto inn á vefnum hjá Wikileaks.

Afrekalisti Monsanto er langur og dökkur (sjá nánar á Wikipediu).

Sjá lista yfir; frætegundir, illgresiseyða og vörumerki í eigu Monsanto.

Grafík af WakeUp-World.com.

Birt:
6. október 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Um stórfyrirtækið Monsanto“, Náttúran.is: 6. október 2014 URL: http://nature.is/d/2012/03/11/um-storfyrirtaekid-monsanto/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. mars 2012
breytt: 5. nóvember 2014

Skilaboð: