Akureyri og Vestmannaeyjar hlutu tilnefningar til titilsins „Norrænt orkusveitarfélag 2011“ í samkeppni sem haldin var nýverið á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.

Samkeppninni er ætlað að vekja athygli á og styðja við aðgerðir norrænna sveitarfélaga sem stuðla að sjálfbærum lausnum í orku- og loftslagsmálum.

Akureyri hlaut tilnefningu fyrir eldsneytisframleiðslu en þar á bæ er lífrænum úrgangi umbreytt í lífdísil. Markmiðið er að framleiða 2.100 tonn af eldsneyti en það svarar til ársnotkunar um 400 bifreiða.

Vestmannaeyjabær fékk sína tilnefningu fyrir mjög metnaðarfulla umhverfisáætlun sem miðar m.a. því að draga stórlega úr orkunotkun og auka vægi sjálfbærra orkugjafa. Hafa eyjaskeggjar meðal annars sett stefnuna á rafmagnsframleiðslu með vindorku fyrir árið 2020 enda er víst ekki vinda vant í Eyjum.

Samkeppninni er ætlað að beina athyglinni að sjálfbærum lausnum norrænna sveitarfélaga á sviði orku- og loftslagsmála. Orkunotkun heimsins og losun gróðurhúsalofttegunda er langmest í borgum og bæjum. Því eru aðgerðir einstakra sveitarfélaga afar mikilvægar þegar minnka á losunina. Aðgerðir þeirra stuðla að framgangi þeirrar sameiginlegu sýnar Norðurlandanna að takast muni í framtíðinni að skapa samfélag sem er óháð jarðefnaeldsneyti.

Að þessu sinni hreppti bærinn Albertslund í Danmörku nafnbótina.

Birt:
6. mars 2012
Höfundur:
Rúv
Tilvitnun:
Rúv „Albertslund - Norrænt orkusveitafélag 2011“, Náttúran.is: 6. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/06/albertslund-norraent-orkusveitafelag-2011/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: