Landvernd hvetur Alþingi til að samþykkja eins fljótt og auðið er frumvarp 59/140 um breytingu á lögum um upplýsingarétt um umhverfismál sem kveður á um skyldu stjórnvalda til að eiga frumkvæði að upplýsingagjöf vegna mengunar.

Á skömmum tíma hafa komið upp tvö alvarleg dæmi um að stofnanir hafi ekki upplýst almenning um mengun í þeirra nánasta umhverfi. Annars vegar er um að ræða viðbrögð Umhverfisstofnunar við díoxínmengun frá sorpbrennslustöðvum og hins vegar viðbrögð Matvælastofnunar við dreifingu kadmíummengaðs áburðar.

Mikilvægt er að á stjórnvöldum hvíli skylda til að veita almenningi upplýsingar um mengun og mengunarhættu sem getur hugsanlega haft áhrif á líf og heilsu fólks.

Auk þess hvetur Landvernd til þess að tillaga stjórnlagaráðs um upplýsingaskyldu um umhverfi verði færð í stjórnarskrá. Í 35 gr. tillagnanna segir meðal annars: ,,Stjórnvöldum ber að upplýsa um ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á. Stjórnvöld og aðrir skulu upplýsa um aðsteðjandi náttúruvá, svo sem umhverfismengun.“ Sjá nánar á vef Alþingis:     
„Upplýsingaréttur um umhverfismál (frumkvæðisskylda stjórnvalda) - 59. mál lagafrumvarp 140. löggjafarþingi.  “

Birt:
25. janúar 2012
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Ályktun frá stjórn Landverndar“, Náttúran.is: 25. janúar 2012 URL: http://nature.is/d/2012/01/25/alyktu-fra-stjorn-landverndar/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 5. mars 2012

Skilaboð: