Hnúfubak rak á fjöru við Stokkseyri
Hnúfubak rak við Stokkseyri fyrir helgi; ríflega ársgamalt dýr, 12 metra langur og um 17 tonn að þyngd ! Var vel saddur eftir loðnuveislu, sjálfsagt orðið bumbult af öllum hrognunum og rekist illa á sker eða loðnubát, en allur loðnuveiðiflotinn var þarna upp við landsteina ásamt hvalavöðu. Allir fengu fullfermi, bæði hvalir og bátaflotinn, þorskurinn fékk afganginn. Loðnan náði einnig að hrygna smá.
Starfsmenn Árborgar og Ræktunarsambands Flóa- og Skeiða sáu um að fjarlægja úr fjörunni síðdegis á laugardaginn og flytja vestur að Oseyri, þar hafði urðunarstaður verið valinn í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.
Tekin var 5,50 djúp gröf í sandinn, kálfinum rennt þar niður af Búkollu Ræktó, mokað yfir þannig að um 3 metra sandlag var yfir. Hnitað og tilkynnt Langræðslu um jarðraskið, en sá þarf melgresi í sárið í vor.
Kálfinum var sæmilega hagrætt í gröfinni, þannig að ef einhver rannsakandi vill grafa grindina upp eftir ca 30 ár þegar mest af fitunni hefur runnið og restin af vefjum rotnað, þá ætti að vera þarna heilleg beinagrind.
Ljósmynd: Hnúfubakurinn hífaður upp, Birgir Þórðarson.
Birt:
Tilvitnun:
Birgir Þórðarson „Hnúfubak rak á fjöru við Stokkseyri“, Náttúran.is: 4. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/04/hnufubak-rak-fjoru-vid-stokkseyri/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.