Umhverfismerki - leiðbeiningar
Tilgangur umhverfismerkinga er „að hjálpa neytendum að velja vörur sem hafa minni áhrif á umhverfi og heilsu en aðrar sambærilegar vörur“. Umhverfismerking einstakrar vöru eða þjónustu er staðfesting á að framleiðandinn hefur uppfyllt fyrirfram skilgreind skilyrði við framleiðslu vörunnar, sem dæmi er gerð krafa um hráefni, umbúðir og áhrif vörunnar á líftíma hennar. Þetta er metið af óháðum, úttektaraðila (ekki fyrirtækinu sjálfu eða viðskiptavini þess).
Hér er mikilvægt að gera greinarmun á vottuðu umhverfismerki og umhverfismerkjum framleiðanda. Hér verður einungis talað um vottuð þriðja aðila merki þar sem þau eru talin trúverðugust.
Einnig skal varast að blanda saman umhverfisvottun fyrirtækja og vottuðum umhverfismerkjum. Umhverfisvottun fyrirtækja (ISO 14001) staðfestir að í fyrirtækinu séu ákveðnir verkferlar sem taka tillit til umhverfismála í starfsemi fyrirtækisins. Umhverfisvottun fyrirtækja segir ekkert til um umhverfisáhrif varanna sem fyrirtækið framleiðir eða selur. Sem dæmi má nefna að málningarframleiðandi eða söluaðili getur haft ISO 14001 vottun án þess að það segi nokkuð um umhverfisáhrif málningarinnar. Að segja að vara sem umhverfisvæn af því að framleiðandinn er með vottað fyrirtæki er sama og að segja að bensín sé umhverfisvænt af því að viðkomandi olíufélag er með vottað umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt ISO 14001.
Umhverfismerki taka hins vegar til vörunnar eða þjónustunnar en segja ekkert um umhverfisstarf fyrirtækisins að öðru leyti. Umhverfismerki og umhverfisstjórnunarkerfi geta skarast þegar merkið nær yfir þjónustu, erfitt getur verið að gera greinarmun á sjálfri þjónustunni og fyrirtækinu sem veitir hana. Það er til dæmis ómögulegt að merkja hótelgistingu án þess að setja umhverfisskilyrði sem snerta rekstur sjálfs hótelsins. Kröfurnar snerta því fyrirtækið sem veitir þjónustuna til að tryggja að þjónustan sé umhverfisvæn.
Umhverfismerki
Óháður þriðji aðili setur ákveðnar kröfur um árangur eða umhverfiseiginleika vöru sem verið er að merkja. Varan eða þjónustan uppfyllir skilyrðin og fær merkingu.
Umhverfisvottun fyrirtækja:
Fyrirtækið ákveður sjálft hverjir séu helstu umhverfisþættir í starfsemi sinni. Óháður aðili gerir úttekt hvort fyrirtækið hafi ákveðna verkferla til að vinna að umhverfismálum. Enginn úttekt er gerð á vörum fyrirtækisins.
Umhverfismálin eru oft flókin, þau fjalla um flókna efnafræði, gróðurhúsaáhrif, áhrif á vistkerfi og svo framvegis. Umhverfismerking auðveldar framleiðandanum að miðla til neytenda framlagi sínu til umhverfismála, neytandinn sparar tíma og fyrirhöfn þess að þurfa að kanna áreiðanleika upplýsinga. Svanurinn og Evrópublómið eru merki sem neytendur geta treyst og ná yfir breitt úrval vöruflokka. Kröfur fyrir vottun vara eru þar að auki í reglulegri endurskoðun. Um lífrænt ræktað matvörur og hráefni gilda merkingarnar Tún og EU-merkið. Þetta eru dæmi um óháð og ábyrg umhverfismerki, en þau eru fleiri. Mikilvægt er að þekkja til merkinganna og vita að hverju gengið er.
Að þróa skilyrði fyrir umhverfismerkingu er æði kostnaðarsamt. Umhverfismerkin eru fjármögnuð að mestu leyti með gjaldtöku af seldum vörum. Til dæmis er kerfi Svansins á þá leið að 0,4 % af heildsöluverði vöru rennur til umsýslu og markaðsstarfsSvansins upp að ákveðnu hámarki þó sem er 200.000 krónur á Íslandi. Svanurinn er merki Norrænu ráðherranefndarinnar og er að hluta fjármagnaður þaðan. Fjármögnun annarra umhverfismerkja er með sams konar hætti, í gegnum sölu á vörunni eða þjónustunni.
Önnur óskilgreind merki
Vörumerkingar verða æ algengari. Fjöldinn allur af merkjum birtast okkur sem gefa til kynna mismunandi hluti. Þessi fjöldi getur gert neytendum erfitt fyrir að lesa í skilaboðin og hafa yfirlit yfir þýðingu þeirra.
Merkjum sem vísa til umhverfissins má gróflega skipta í þrennt: Í fyrsta lagi eru það viðurkennd, merki vottuð af þriðja aðila, í öðru lagi umhverfismerki sem framleiðendur sjálfir merkja vörur sínar með og í þriðja lagi merki sem hafa ekkert með umhverfisstarfs fyrirtækisins að gera og geta verið villandi.
Tvo síðastnefndu flokkana getur verið erfitt að aðgreina. Eigin merki framleiðenda eru ekki jafn trúverðug og traust og fyrrgreind merki sem eru metin af óháðum aðila. Ýmis merki geta verið villandi – þau segja ekkert til um það hvort og hvernig varan hafi áhrif á umhverfið.
Nákvæmar upplýsingar um hvaða aðilar á Íslandi eru með umhverfisvottun og vottuð umhverfisstjórnunarkerfi er að finna hér á Grænum síðum. Þú velur þann flokk sem við á og slærð inn leitarorð.
Grafík: Tákn sem notað er eingöngu hér á vefnum þegar fjallað er um umhverfismerki almennt ©Náttúran.is.
Birt:
Tilvitnun:
Finnur Sveinsson „Umhverfismerki - leiðbeiningar“, Náttúran.is: 1. júní 2012 URL: http://nature.is/d/2007/05/07/leibeiningar-um-umhverfismerki/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 7. maí 2007
breytt: 14. júní 2014