Landvernd og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands (NSV) efndu til baráttufundar um vernd náttúrusvæða á Reykjanesskaga í kvöldið, 30. maí. Fundurinn var fjölsóttur og fundarmenn lýstu yfir óánægju sinni með hversu margar virkjanahugmyndir á svæðinu lenda í orkunýtingarflokki, eða alls 7 af 15 hugmyndum. 5 lenda í biðflokki og 3 í verndarflokki. Þegar hafa risið 4 jarðvarmavirkjanir á svæðinu.

Á fundinum töluðu Sigmundur Einarsson jarðfræðingur um jarðminjar og orkuvinnslu, Ellert Grétarsson náttúruljósmyndari og leiðsögumaður sýndi fjölda mynda af svæðinu og ræddi um áhrif virkjana á landslag og upplifun útivistar og ferðafólks. Ásta Þorleifsdóttir jarðfræðingur fjallaði um eldfjallaþjóðgarð á Reykjanesskaga og möguleika sem honum myndu fylgja. Á eftir framsöguerindum tók við pallborð með fulltrúum stjórnmálaflokka. Í pallborði voru: Árni Johnsen frá Sjálfstæðisflokki, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir frá Vinstri grænum, Mörður Árnason frá Samfylkingu og Þór Saari frá Hreyfingunni. Góðar umræður sköpuðust við þingmenn um málið og er það von Landverndar og NSVE að komið verði á móts við óskir náttúruverndarhreyfingarinnar um að minnka orkunýtingarflokk til muna. Skynsamlegra er að hafa stóran biðflokk á kostnað minni orkunýtingarflokks.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum:

„Baráttufundur um vernd náttúrusvæða á Reykjanesskaga, haldinn í Reykjavík 30. maí 2012, hvetur þingmenn til að endurskoða fyrirliggjandi tillögur rammaáætlunar um Reykjanesskaga þar sem flest jarðhitasvæði frá Hellisheiði og vestur úr eru sett í nýtingarflokk. Fundurinn telur virkjanir í og við Reykjanesfólkvang óásættanlegar vegna náttúruverndargildis svæðisins og óvissu sem fylgir jarðhitanýtingu, m.a. er varðar losun brennisteinsvetnis og affallsvatns.

Með jarðhitavirkjunum í og við Reykjanesfólkvang er m.a. gengið gegn áformumum að vernda fólkvanginn og stofna þar eldfjallaþjóðgarð, en náttúruverndarhreyfingin og Samtök ferðaþjónustunnar hafa áður bent á þau ríku tækifæri sem í því felast. Jarðfræði Reykjanesskagans er einstök á heimsvísu og upplifunargildi lítt snortinnar náttúru á stórum svæðum í næsta nágrenni höfuðborgarinnar er hátt. Baráttufundurinn krefst þess að Alþingi endurskoði þennan þátt áætlunarinnar og færi hið minnsta Sveifluháls í Krísuvík, Sandfell sunnan Keilis, Stóru-Sandvík og Eldvörp í bið- eða verndarflokk.“.

Ljósmynd: Keilir © Árni Tryggvason.

Birt:
1. júní 2012
Tilvitnun:
Guðmundur Ingi Guðbrandsson „Fjölmenni var á baráttufundi um Reykjanesskaga“, Náttúran.is: 1. júní 2012 URL: http://nature.is/d/2012/06/01/fjolmenni-var-barattufundi-um-reykjanesskaga/ [Skoðað:16. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: