Opinn fundur um verndun og orkunýtingu landssvæða
Kynningarfundur um umsögn þrettán náttúruverndarsamtaka* um drög að tillögu að þingsályktun um verndun og orkunýtingu landssvæða verður haldinn í Þjóðminjasafninu, miðvikudaginn 8. febrúar kl. 12:00-13:30.
Framsöguerindi flytur Rannveig Magnúsdóttir sem ritstýrði umsögn samtakanna. Almennar umræður í lokin.
Á næstu dögum má vænta endanlegrar þingsályktunartillögu iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra um verndun og orkunýtingu landssvæða. Í nóvember síðastliðnum skiluðu þrettán náttúruverndarsamtök á Íslandi sameiginlegri umsögn um drög að þessari tillögu. Samtökin þrettán lögðu til að mun hægar verði farið í frekari orkuuppbyggingu í jarðvarma og vatnsafli og fleiri svæðum hlíft en tillögudrögin gera ráð fyrir. Samtökin setja fram skýra sýn sem byggir á náttúruvernd og leggja m.a. til stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands og eldfjallaþjóðgarðs á Reykjanesskaga, auk verndunar Jökulsánna í Skagafirði og svæða í Skaftárhreppi svo eitthvað sé nefnt. Samtökin þrettán styðja þá aðferðafræði að skipta svæðum í verndar-, bið- og nýtingarflokka og fagna því sérstaklega að dýrmæt náttúruverndarsvæði fari í verndarflokk, t.d. Þjórsárver, Jökulsá á Fjöllum, Kerlingarfjöll, Bitra og Grændalur, Geysir og Gjástykki.
Yfirgnæfandi meirihluti erlendra gesta sem sækir okkur heim lítur á náttúru Íslands sem helsta aðdráttarafl landsins. Náttúra Íslands einkennist af einstöku samspili elds og ísa, stórbrotnu landslagi og stórum lítt snortnum víðernum, sem þó hefur verið gengið freklega á síðustu áratugina. Virkjanahugmyndir lenda gjarnan inn á svæðum með afar hátt verndargildi. Því fara verndun og orkunýting víða illa saman. Nú þegar er búið að raska um helmingi af virkjanlegum háhitasvæðum á landinu og fjöldinn allur af vatnsaflsvirkjunum hefur verið reistur eða er í byggingu, ekki síst á hálendinu eða í jaðri þess. Þá ríkir mikil óvissa um endingu og sjálfbærni jarðvarmaauðlindarinnar og heilsufarsleg áhrif jarðvarmavirkjana. Auk þessa fæst ekki séð að mikil þörf sé fyrir stóraukna raforkuframleiðslu á næstu árum. Samtökin þrettán undirstrika mikilvægi þess að iðnaðarráðherra, umhverfisráðherra og Alþingi taki mið af þessum þáttum við gerð og þinglega meðferð tillögunnar.
*Eftirfarandi samtök stóðu að umsögninni
Eldvötn - samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi
Félag um verndun hálendis Austurlands
Framtíðarlandið
Fuglavernd
Jöklahópurinn Skagafirði
Landvernd
Náttúruvaktin
Náttúruverndarsamtök Íslands
Náttúruverndarsatök Suðurlands
Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands
Náttúruverndarsamtök Vestfjarða
NAUST
Sól á Suðurlandi
SUNN
Grafík: Háhitasvæði á Norðurlandi, Guðrún A. Tryggvadóttir fyrir Landvernd.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd „Opinn fundur um verndun og orkunýtingu landssvæða“, Náttúran.is: 6. febrúar 2012 URL: http://nature.is/d/2012/02/06/opinn-fundur-um-verndun-og-orkunytingu-landssvaeda/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 7. febrúar 2012