Veist þú hvaða aukefni eru í matarkörfunni þinni?
Í matvælum nútímans eru allskyns aukefni sem við flest kunnum lítil skil á. En hvaða efni eru þetta og hvaða áhrif skyldu þau hafa á líkama okkar? Eru einhver þeirra kannski ofnæmisvaldandi og geta sum aukefni e.t.v. valdið ofvirkni hjá börnum? Eða hafa einhver þeirra e.t.v. jákvæð áhrif á líkamann?
Náttúran.is hefur tekið saman ítarlegan gagnagrunn yfir þau margvíslegu aukefni sem eru til staðar í matvælum. Sjá E aukefnatólið hér og einnig er hægt að skoða það í farsímum og spjaldtölvum í búðinniog (e.natturan.is). Um er að ræða efni eins og litarefni, þráavarnarefni og bindiefni. Sum efnin eru talin geta haft skaðleg áhrif á heilsu manna á meðan önnur aukefni eru beinlínis andoxandi og talin geta aukið hreysti og heilsu. Þriðji flokkur efna er síðan tiltölulega hlutlaus, þ.e. veldur hvorki neikvæðum né jákvæðum áhrifum. Skaðlegu efnin eru merkt rauðu megin á skalanum, hlutlaus efni á gula hluta skalans og efni sem talin eru hafa jákvæð áhrif á líkamann eru merkt grænu megin á skalanum. Heimilda er getið í hverju tilviki fyrir sig en varúðarstig er aðeins gefið upp til hliðsjónar og Náttúran.is tekur ekki afstöðu til þessar efna með neinum hætti.
Með því að slá inn heiti E efnisins sem þú hefur áhuga á að fá upplýsingar um getur þú öðlast betri þekkingu á viðkomandi aukefni. Þú getur beitt skynsemi þinni og þekkingu til að velja frekar þau aukefni sem hafa jákvæð áhrif og þannig haft áhrif á markaðinn. Ef við neytendur stöndum saman, þá getum við breytt ansi miklu í veröldinni.
Öll aukefnin hafa svokallað E númer, en E stendur fyrir Evrópu. Nánari upplýsingar um aukefni er að finna á vef Matvælastofnunar – www.mast.is en Matvælastofnun ber ábyrgð á eftirliti með aukefnum í matvælum hér á landi.
Tákn fyrir um E aukefnatól Náttúrunnar: Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is.
Birt:
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Veist þú hvaða aukefni eru í matarkörfunni þinni?“, Náttúran.is: 5. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2011/06/29/veist-thu-hvada-aukefni-eru-i-matarkorfunni-thinni/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 29. júní 2011
breytt: 16. september 2014