Fyrir skemmstu keypti Vogaskóli, fyrstur íslenskra skóla, Kindle spjaldtölvur frá Amazon fyrir hluta nemenda sinna. Þetta er liður í þróun frá prentuðu námsefni til rafræns efnis. Skömmu síðar kynnti Apple tölvu- og hugbúnaðarframleiðandinn innkomu sína á námsefnismarkaðinn með iBooks Author sem er ókeypis tól til að framleiða gagnvirkar kennslubækur. Þær virka reyndar aðeins á iPad, spjaldtölvu Apple, í allri sinni gagnvirku dýrð. Námsefnið fyrir Kindle er svart-hvítt og ekki gagnvirkt með sama hætti. Efni fyrir Kindle er líka, eins og iBooks bækurnar, ætlað fyrir tölvur eins framleiðanda. Amazon framleiðir og dreifir reyndar frítt forriti til að lesa Kindle bækur á nánast hvaða tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma sem er. En ljóst er að á næstunni verður samkeppnin mikil enda um stóran markhóp að ræða.

Fleiri framleiðendur eru að framleiða spjaldtölvur af ýmsum stærðum og gerðum. Og þess má vænta að einhverjir framleiði hugbúnað til að lesa iBook kennslubækur á fleiri tölvum en iPad.

En hverjir eru kostir og gallar þessarar þróunar? Fyrir skólabörnin er augljós kostur að vera ekki að burðast með fleiri kíló af skólabókum fram og aftur alla daga. Bækurnar týnast líka síður. Ef börnin, eða nemendur á efri stigum og í háskóla eiga síðan að færa inn glósur og minnispunkta gegnum tölvu er hætta á að handritun fari forgörðum nema sérstaklega verði hlúð að henni.

Töluvtæknin og gagnvirknin geta gert samhengi og tengsl skilvirkari og þannig fellt námsefnið betur að þeim vef minninga og reynslu sem heilinn spinnir frekar en línulegur lestur og ferköntuð hólfun efnis sem fyrri kennsluhættir hafa byggt á.

Uhverfisáhrif eru einnig spurning en námsgögn nemanda í grunnskóla, prentefni og stílabækur,  eru 6 til 12 kíló af pappír á ári. Við framleiðslu spjaldtölvu gætu fallið til á annaðhundrað kíló af úrgangsefnum. En hún getur líka enst árum saman. Og þar liggur kannski kjarni sem vert er að huga að. Í neyslusamfélaginu leggja framleiðendur áherslu á að koma reglulega með nýjungar sem úrelda eldri framleiðslu. Þetta hefur reyndar átt við um prentað kennsluefni líka sem kemur út með litlum breytingum svo eldir útgáfur ónýtist. En fyrstu iPad-arnir eru flestir enn í fullu fjöri. Enda vönduð framleiðsla. Sama á við um Kindle. Ef hægt væri að hvetja framleiðendur til að vanda framleiðslu sína svo þessi tæki gætu enst, í höndum barna og unglinga, í nægilega mörg ár til að umhverfisávinningur verði einhver og hanna þau þá kannski þannig að skipta mætti út örgjörfa og rafhlöðu svo uppfæra mætti tækið eftir atvikum, þá væri von til þess að þessi spjaldtölvuvæðing gæti náð um allan heim en ekki aðeins ofdekraðar barna vesturlanda. Því birgðir heimsins af hráefnum í þessi tól eru ekki ótakmarkaðar og munu ekki duga í nýja tölvu handa öllum annað eða þriðja hvert ár. Það er ljóst.

Því verðum við að taka höndum saman, neytendur og framleiðendur, að komast að samkomulagi sem er öllum til hagsbóta. Markaðssókn frameiðenda verður þá ekki eingönu sú að fá alla til að endurnýja búnað sinn oft, heldur að sækja á breiðari markað með betri tæki.

Ljósmynd: Barn með Kindle rafbók og skólatösku, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
Jan. 22, 2012
Höfundur:
Einar Bergmundur
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Spjaldtölvur í skólum“, Náttúran.is: Jan. 22, 2012 URL: http://nature.is/d/2012/01/22/spjaldtolvur-i-skolum/ [Skoðað:Oct. 15, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Jan. 30, 2012

Messages: