Hringið í Neyðarlínuna 112 ef slys ber að höndum.

Ef um minni skrámur eða veikindi er að ræða er góður sjúkrakassi eitt það allra nauðsynlegasta á heimilinu. Einnig er gott að hafa mikilvægustu símanúmer á ísskápshurðinni og á miða í sjúkrakassanum. Plástrar í ýmsum stærðum, sáraumbúðir, teygjubindi, verkjalyf og sótthreinsandi áburður er það allra nauðsynlegasta.

Það er staðreynd að flest slys hér á landi verða innan veggja heimilisins. Sérstaklega þarf að gæta varúðar ef smábarn er á heimilinu. Þá þarf að taka öll sterk efni og þvottaefni, lyf og rafhlöður svo eitthvað sé nefnt og geyma þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Best er að fara reglulega á námskeið í hjálp í viðlögum og vera þess meðvitaður að alltaf getur eitthvað komið fyrir og nauðsynlegt er að vita hvernig maður bregst best við tilteknum aðstæðum. Líf getur legið við, þitt eða annarra.

Víða um landið halda deildir Rauða krossins skyndihjálparnámskeið fyrir almenning (sjá skyndihjalp.is). Á hverju ári fara um  6 þús. til 8 þús. manns á slíkt námskeið. Samkvæmt samningi við íslensku ríkisstjórnina, hefur Rauði Kross Íslands yfirumsjón með fræðslu um skyndihjálp, leggur fram kennsluefni og tryggir að verið sé að nota nýjustu aðferðir. Rauði Krossinn heldur einnig námskeið um félagslega- og sálræna aðstoð og skipuleggur neyðaraðstoð þegar stór slys verða eða náttúruhamfarir. Nýlega gaf Rauði krossinn út skyndihjálpar-app bæði fyrir iOS og Android.

Símanúmer hjá heimilislækni, aðstandendum og næstu heilsugæslustöð ættu að vera í sjúkrakassanum og á ísskápshurðinni. Einnig upplýsingar um ofnæmi, lyfjatöku eða annað sem kemur heilsu heimilisfólks við.

Eitrunartilfelli

Ef slys ber að höndum og lyf hafa af einhverjum ástæðum verið gleypt eða misnotuð skal leita strax til Eitrunarmiðstöðvarinnar en hún er opin allan sólarhringinn. 

Eitrunarmiðstöðin er starfrækt á Landspítala. Eitt af helstu hlutverkum hennar er að veita upplýsingar um eiturefni og ráðgjöf um viðbrögð og meðferð þegar eitranir verða. Símaþjónusta er opin öllum og veitt ráðgjöf af fagfólki allan sólarhringinn.

Upplýsingar sem gott að hafa tiltæk þegar hringt er í Eitrunarmiðstöðina?

  • Heiti efnis eða lyfs, best er að hafa umbúðirnar við höndina
  • Hvenær eitrunin átti sér stað
  • Aldur og þyngd sjúklings

Sími Eitrunarmiðstöðvarinnar er 543 2222 eða 112 í gegnum neyðarlínuna.

Gömul lyf eiga ekki heima í heimilisruslinu heldur á að fara með þau í apótek til förgunar. Þau koma þeim í réttan farveg til Efnamóttökunnar sem sér síðan um rétta förgun spilliefna og lyfja.

Birt:
14. janúar 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Skyndihjálp“, Náttúran.is: 14. janúar 2014 URL: http://nature.is/d/2007/06/21/skyndihjlp/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. júní 2007
breytt: 9. júní 2015

Skilaboð: