Bókin Náttúrutúlkun - Handbók er komin út hjá Náttúrustofu Norðausturlands. Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir skrifaði bókina en gerð hennar styrktu Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar, Vinir Vatnajökuls, Umhverfisráðuneytið og Ferðamálastofa.

Náttúrutúlkun er áhrifarík aðferð sem er notuð við fræðslu á vinsælum útivistarsvæðum víða um heim, svæðum sem hafa meðal annars að geyma einstakar náttúru- og menningarminjar. Aðferðir náttúrutúlkunar má einnig nota í kennslu með góðum árangri, t.d. í útinámi. Náttúrutúlkun varpar ljósi á það sem er gestum ekki endilega augljóst. Hún segir söguna á bak við útsýnið, náttúrufyrirbærið eða húsarústirnar og hún tengir saman auðlind og gest, þar sem auðlindin; náttúran og sagan öðlast sérstaka merkingu í hugum gesta.

Handbókin nýtist öllum þeim sem leiða gesti um náttúru Íslands og vilja ekki aðeins vekja áhuga þeirra á margbrotinni náttúru landsins heldur einnig skapa varanleg tengsl milli gesta og náttúrunnar, bæði vitsmunaleg og tilfinningaleg. Tengsl sem leiða af sér virðingu og væntumþykju, tengsl þar sem náttúran öðlast sérstaka merkingu í hugum gesta, og tengsl sem skilja eftir sig einstaka upplifun og dýrmætar minningar. Handbókin nýtist landvörðum, leiðsögumönnum, kennurum og öðrum þeim sem vilja tileinka sér aðferðir náttúrutúlkunar við leiðsögn og kennslu.

Bókin er 135 bls. í A5 broti, gormuð og í henni eru rúmlega 80 ljósmyndir. Bókin fæst hjá Náttúrustofu Norðausturlands og kostar kr. 3.900.- auk sendingarkostnaðar. Í sumar verður bókin einnig til sölu í gestastofum friðlýstra svæða og e.t.v. víðar.

Myndin er af kápu bókarinnar.

Birt:
29. maí 2012
Tilvitnun:
Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir „Náttúrustofa Norðausturlands gefur út handbók í náttúrutúlkun“, Náttúran.is: 29. maí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/05/29/natturustofa-austurlands-gefur-ut-handbok-i-nattur/ [Skoðað:27. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: