Iðnaðarsalt í matvælum
Ölgerð Egils Skallagrímssonar hefur selt iðnaðarsalt til matvælaframleiðslu hér á landi í að minnsta kosti 13 ár. Matvælastofnun heimilaði sölu á umframbirgðum af slíku salti þótt það sé brot á matvælalögum. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur er mjög ósátt við málið.
Mörg af stærstu matvælafyrirtækjum landsins hafa notað iðnaðarsalt við framleiðslu sína síðustu 13 ár. Ölgerð Egils Skallagrímssonar, sem flutti saltið inn, segist ekki hafa vitað að saltið væri ætlað til notkunar í matvælaiðnaði.
Komið hefur í ljós að salt frá hollenska fyrirtækinu Akzo Nobel sem Ölgerðin hefur flutt inn og dreift til matvælafyrirtækja í að minnsta kosti 13 ár, uppfyllir ekki kröfur sem gerðar eru til hráefnis í matvælaframleiðslu. Saltið er ekki ætlað til notkunar í matvælaiðnaði, heldur er það svokallað iðnaðarsalt. Efnasamsetning iðnaðarsalts og matvælasalts er svipuð, en meira eftirlit er með matvælasalti og geymsluaðferð önnur. 91 fyrirtæki keypti slíkt salt hér á landi í fyrra.
Samkvæmt upplýsingum frá Ölgerðinni vissu menn þar á bæ ekki af því að saltið væri ekki ætlað til matvælaframleiðslu fyrr en Matvælastofnun komst að því í byrjun nóvember. Mörg af stærri matvælafyrirtækjum landsins hafa keypt þetta salt af fyrirtækinu.
Ölgerðin starfar samkvæmt starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, en heilbrigðiseftirlit um allt land hafa verið látin vita af málinu.
Getur iðnaðarsalt verið hættulegt til manneldis?
„Samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda þessa salts er engin almenn hætta við notkun á þessu salti en það er ekki ætlað til matvælanotkunar. Eðli málsins samkvæmt er það þannig að það eru miklu ríkari kröfur gerðar til framleiðslu á hráefni í matvæli en til iðnaðarsalts þannig að það er ekki hægt að fullyrða að þetta salt sé öruggt,“ sagði Óskar Ísfeld Sigurðsson deildarstjóri matvælaeftirlits Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í viðtali við fréttastofu RÚV.
Óskar segir sölu á saltinu vera brot á lögum um matvæli.
„Sala á iðnaðarsalti til notkunar í matvælaframleiðslu er ekki í samræmi við matvælalöggjöfina. Og þar með brot á henni,“ sagði Óskar.
Samkvæmt upplýsingum frá Ölgerðinni stöðvaði fyrirtækið dreifingu á saltinu til fyrirtækja í matvælaiðnaði og upplýsti þau um málið. En þar með er ekki öll sagan sögð.
Matvælastofnun heimilaði Ölgerðinni áframhaldandi dreifingu á þessu salti, Ölgerðin hafði óskað eftir því gegn því að upplýsa kaupendur, og með samþykki þeirra, að fá að gera það.
Aðspurður hvað skoðun heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi á því sagði Óskar: „Við erum ósammála henni og hefðum ekki tekið þá ákvörðun, við hefðum ekki heimilað það. Við lítum þetta mál mjög alvarlegum augum.“
Ljósmynd af halli.files.wordpress.com, af iðnaðarsaltinu sem um ræðir í greininni.
Birt:
Tilvitnun:
Rúv „Iðnaðarsalt í matvælum“, Náttúran.is: 13. janúar 2012 URL: http://nature.is/d/2012/01/13/idnadarsalt-i-matvaelum/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 15. janúar 2012