Ég myndi helst vilja eignast hænur til að breyta matarafgöngunum mínum í egg, en get það ekki. Ég bý þó svo vel að eiga garð þar sem ég get haft moltugerðarkassa og búið til jarðvegsbæti sem ég nota síðan sjálfur í garðinn minn.

En hvað með alla þá sem ekki hafa aðstöðu til heimajarðgerðar? Hvað er til ráða handa þeim? Tja, þeir gætu fengið sér kvörn í vaskinn og látið vatnið og þyngdaraflið um að losa sig við eldhúsafgangana. En er það nógu gott? … Þeir geta bara sett eldhúsafgangana í gráu ruslatunnuna sína og látið SORPU um að búa til metan á urðunarstaðnum úr þeim, sem og úr öllu hinum lífræna úrganginum, sláturhúsaúrgangi, fráveituhrati, lýsishrati o.s.frv. Þeir eru víst að gera góða hluti, metan á um 1.000 bíla …

En það hlýtur að vera til enn betri leið. Hvað með brúna tunnu frá Íslenska gámafélaginu? Þeir hafa jú fengið Kuðunginn fyrir þriggjatunnukerfið sitt. Að vísu þarf þá að kaupa fullt af tunnum og koma þeim fyrir; en hvað með það? Það þarf líka að sækja úrganginn á stórum trukkum og auka þannig akstur og umferð um göturnar; en hvað með það? Jú, úrgangi ber að koma fyrir í sérkeyptum maís(plast)pokum sem settir eru í sérkeyptar plastkörfur; en hver vill ekki sýna vistvernd í verki? Ég meina, það hlýtur samt sem áður að vera málið. Það er meira að segja gerð krafa um sérflokkun á lífrænum úrgangi í leiðbeiningum um vistvæn innkaup sem umhverfisráðuneyti er að búa til.

Gott og vel. En hvað verður síðan um úrganginn? Á vef Íslenska gámafélagsins segir að hann sé fluttur beint á jarðgerðarsvæði fyrirtækisins þar sem notast er við nýstárlegar jarðgerðarvélar. En bíddu við, þarf ekki að vera með starfsleyfi til þess að jarðgera? Þrátt fyrir ítarlega leit, finn ég ekkert um starfsleyfi Íslenska gámafélagsins á vef Umhverfisstofnunar né annars staðar. En það hlýtur að vera misskilningur, ég meina, það eru allir með brúna tunnu, meira að segja Umhverfisstofnun. Og ekki starfar ný-umhverfisvottað fyrirtæki án starfsleyfis?…

Gott og vel. En hvað verður um þessa dýrindis moltu sem þeir búa til? Hún ætti nú að nýtast sem jarðvegsbætir, en reglugerðinni um notkun moltu sem búin er til úr heimilisúrgangi var breytt í fyrra í þá átt að nánast ómögulegt er að nota hana?... Er Íslenska gámafélagið ekki örugglega að jarðgera innihald brúnu tunnunnar sem velviljugir viðskiptavinir þess halda til haga? Svarið er NEI! Þeir hættu jarðgerðinni um mitt ár 2011, án þess að tilkynna það til leigjenda brúnu tunnunnar eða draga nokkuð úr markaðssetningu tunnunnar. Sérsafnaða lífræna úrganginum er blandað saman við annað sorp og það flutt til urðunar í Álfsnesi. Sem betur fer sér SORPA um að safna saman metani? … Sem sagt, keisarinn er nakinn. Ekki er nóg að hafa af fólki fé með sérpokum, sérílátum, sértunnum og sérferðum; nei, best að hafa það að fífli í leiðinni.

Höfundurinn Michele Rebora titlar sig sem umhverfisfasista og stjórnunarráðgjafa.

Þar sem um alvarlegar ásakanir er að ræða fór Náttúran.is fram á við höfund að hann gæti stutt fullyrðingar þær sem koma fram í greininni með heimildum og fékk eftirfarandi svar frá Michele við fyrirspurninni:

Hér er svarið við fyrirspurn frá mér til Umhverfisstofnunar þér til staðfestingar:

"Umhverfisstofnun fór að flokka sitt sorp við innleiðingu á ISO 14001 og gerði samning við fyrirtæki sem tekur á móti sorpi til endurvinnslu. Samkvæmt upplýsingum sem stofnunin fékk frá fyrirtækinu þá, þá fór lífrænn úrgangur til jarðgerðar.

Í kjölfar þessarar fyrirspurnar var farið í frekari athugun hjá fyrirtækinu og kemur þá í ljós að fyrirtækið hætti jarðvinnslugerð um mitt árið 2011 án þess að stofnuninni væri gert kunnugt um það. Upplýsingar á heimasíðu fyrirtækisins eru enn í dag villandi hvað þetta varðar.

Í kjölfar þessa verður farið í endurskoðun á þessum málum hjá stofnuninni.

Umhverfisstofnun leggur ríka áherslu á að flokkaður úrgangur sem frá henni fer sé endurunninn en fari ekki í urðun.

kv, Ástríður Elín Jónsdóttir

Gæðastjóri "

Ég stend við hvert orð sem fram kemur í greininni, segir Michele að lokum.

Birt:
25. maí 2012
Höfundur:
Michele Rebora
Tilvitnun:
Michele Rebora „Nýju fötin keisarans - sagan af brúnu tunnunni“, Náttúran.is: 25. maí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/05/25/nyju-fotin-keisarans-sagan-af-brunu-tunnunni/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 4. júní 2012

Skilaboð: